„Það er engin værukærð“

Birkir Bjarnason ásamt félögum sínum í íslenska landsliðinu á æfingu.
Birkir Bjarnason ásamt félögum sínum í íslenska landsliðinu á æfingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birkir Bjarnason hefur spilað stórt hlutverk með íslenska landsliðinu í knattspyrnu sem mætir Lettum á Laugardalsvelli í síðasta heimaleik sínum í undankeppni Evrópumótsins á laugardaginn og sækir síðan Tyrki heim á þriðjudaginn í lokaumferð riðlakeppninnar.

„Við erum allir mjög klárir í að enda undankeppnina með stæl. Það er mjög mikilvægt því vitum að við getum komist ofar á styrkleikalistann og komist í þriðja styrkleikaflokkinn fyrir dráttinn í lokakeppnina í Frakklandi,“ sagði Birkir í samtali við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í morgun en hann lék sinn 40. landsleik þegar Ísland lagði Kasakstan í síðasta mánuði og tryggði sér farseðilinn í úrslitakeppni EM.

„Það er engin værukærð í hópnum þó svo að EM-sætið sé í höfn. Við förum í þessa tvo síðustu leiki eins og aðra sem við höfum spilað í riðlinum. Þessir leikir eru mjög mikilvægir upp á framhaldið og við ætlum að skila góðum leik hér á heimavelli fyrir framan fullar stúkur á laugardaginn,“ sagði Birkir.

Spurður hvort hann sé eitthvað farinn að láta hugann reika til Frakklands sagði Birkir;

„Nei ekki mikið. En auðvitað er þetta svolítið sérstakt að við séum komnir á Evrópumótið. Það er eðlilega mikil tilhlökkun í okkur öllum.“

Hef fundið mig vel hjá Basel

Birkir gekk í sumar í raðir svissneska liðið Basel og hefur farið ákaflega vel af stað með liði sínu.

„Mér er búið að ganga mjög vel og þó svo að við höfum ekki komist í Meistaradeildina þá höfum við byrjað Evrópudeildina vel og vonandi heldur þetta áfram. Ég hef fundið mig vel, hef skorað mörk og er bara mjög ánægður. Ég heyri ekki betur en að Basel sé ánægt með mig. Ég vissi alveg hvað ég var að fara úti þegar ég tók tilboði Basel. Þetta er stórt og öflugt félag og öll aðstaða hjá því er frábær í alla staði.

Deildin er auðvitað ekki eins sterk og Sería A á Ítalíu en það hefur komið mér á óvart hversu góð svissneska deildin er. Það var mikilvægt fyrir mig að vera fljótur að stimpla mig inn og það er mikilvægt fyrir alla leikmenn sem skipta um félag að byrja ve,“ sagði Birkir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert