Þetta er hundfúl staða

Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson.
Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Eggert

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson verður að bíta í það súra epli að fá ekki að taka þátt í síðasta heimaleik íslenska landsliðsins í undankeppni EM gegn Lettum á laugardaginn.

Aron tekur út eins leiks bann eftir að hafa fengið rauða spjaldið í leiknum á móti Kasakstan í síðasta mánuði þegar Íslendingar tryggðu sér farseðilinn í úrslitakeppnina EM í Frakklandi næsta sumar. Aron Einar er á mála hjá velska liðinu Cardiff sem hann hefur spilað með frá árinu 2011 en yfirstandandi tímabil hefur ekki verið neinn dans á rósum hjá Akureyringnum harðskeytta. Hann hefur verið úti í kuldanum hjá stjóranum Russell Slade og hefur aðeins komið við sögu í þremur leikjum liðsins 10 í deildinni, í öll skiptin sem varamaður.

„Jú, auðvitað er leiðinlegt að geta ekki spilað síðasta heimaleikinn í undankeppninni. Ég vil eðlilega spila alla leiki og sérstaklega þegar maður spilar svona lítið með sínu félagsliði,“ sagði Aron Einar, sem tekur þátt í undirbúningi landsliðsins þrátt fyrir leikbannið því landsliðið heldur utan til Tyrklands á sunnudaginn og mætir Tyrkjum í lokaumferðinni og þar má fastlega búast við því að hann verði í eldlínunni.

„Þrátt fyrir að EM-sætið sé í höfn þá erum við hvergi nærri hættir. Nú er það undir okkur komið að vinna riðilinn. Við verðum að halda sigurhefðinni og markmiðin eru alveg skýr. Við ætlum að vinna riðilinn,“ sagði Aron Einar.

Um stöðu sína hjá Cardiff sagði Aron Einar;

„Það er ekki hægt að segja að staða mín hjá Cardiff sé neitt sérstök. Þetta er hundfúl staða. Ég missti sæti mitt í liðinu á undirbúningstímabilinu og ég er auðvitað að reyna að vinna sæti mitt til baka. Það er hægt að horfa á þetta á tvo vegu. Ég er að æfa meira en vanalega en leikformið er ekki jafn gott og það var. Ég hef núna meiri tíma í að bæta þá hluti sem þarf að bæta á æfingasvæðinu og ég reyni að hugsa þetta jákvætt en vitaskuld er ég ekki sáttur“ segir Aron, sem hefur rætt við stjórann og það hafa líka landsliðsþjálfararnir Lars og Heimir gert.

Sjá allt viðtalið við Aron í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert