Stjarnan fer frá Glódísi til Söru

Gaëlle Enganamouit í leik með Kamerún gegn Sviss á HM …
Gaëlle Enganamouit í leik með Kamerún gegn Sviss á HM í Kanada í sumar. AFP

Gaëlle Enganamouit, knattspyrnukona frá Kamerún sem hefur slegið rækilega í gegn í sænsku úrvalsdeildinni, hefur samið við meistaraliðið Rosengård til næstu tveggja ára en hún hefur spilað með Eskilstuna síðustu tvö árin.

Enganamouit varð markadrottning deildarinnar í ár með 18 mörk en Eskilstuna kom geysilega á óvart, með Glódísi Perlu Viggósdóttur í lykilhlutverki í vörninni, og veitti Rosengård harða keppni um meistaratitilinn, fram í síðustu umferð. Sara Björk Gunnarsdóttir og samherjar höfðu þó betur að lokum og nú hafa þær líka sigrað Eskilstuna í slagnum um þennan öfluga framherja.

„Mér leið mjög vel í Eskilstuna en ég vildi fá nýja áskorun og Rosengård er geysilega sterkt lið sem spilar fótbolta að mínu skapi. Ég hef trú á að ég bæti mig sem leikmaður með Rosengård," segir Enganamouit í viðtalið við Sydsvenskan í dag.

Enganamouit vakti líka athygli með Kamerún á HM í Kanada í sumar en þar gerði hún m.a. þrennu í sigurleik gegn Ekvador. Hún spilaði eitt tímabil með Spartak Subotica í Serbíu og vann þar meistaratitilinn áður en hún gekk til liðs við Eskilstuna í ársbyrjun 2014. Þar gerði hún samtals 24 mörk í 41 leik í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert