Molde hentar mér mjög vel

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Víðir Sigurðsson

„Þetta gerðist allt mjög hratt," sagði Eiður Smári Guðjohnsen við mbl.is eftir að hann hafði skrifað undir samning í dag við norska knattspyrnufélagið Molde um að leika með því út komandi keppnistímabil.

„Það er um það bil vika síðan ég fékk skilaboð frá Ole Gunnar Solskjær um að hann langaði að heyra í mér. Við ræddum saman og mér leist strax mjög vel á það sem hann sagði. Hann er með ungan hóp, reyndasti maður liðsins er að leggja skóna á hilluna eftir Evrópuleikina í þessum mánuði, og hann sagðist strax hafa haft mig í huga þegar hann fór að leita að reyndum manni í staðinn," sagði Eiður Smári.

„Þetta hentar mér líka mjög vel. Keppnin í norsku úrvalsdeildinni hefst eftir einn mánuð svo ég hef góðan tíma til að koma mér í betra form, æfa með liðinu og komast inn í hlutina hérna í Noregi. Ég fór á fyrstu æfinguna strax í dag, ég vildi ná úr mér þreytunni eftir að hafa komið hingað í gærkvöld og farið í læknisskoðun, og sá að völlur liðsins og öll aðstaða eru til mikillar fyrirmyndar," sagði Eiður.

Aker Stadion, leikvangur Molde, er lagður gervigrasi en Eiður sagði að það væri ekki vandamál. „Þetta er  fallegur leikvangur og góður völlur og mér líst afar vel á allt hjá félaginu," sagði hann en æfingin í dag fór einmitt fram á aðalvellinum.

Eiður kvaðst vissulega hafa horft til Evrópukeppninnar í Frakklandi í sumar þegar hann ákvað að semja við Molde.

„Já, það er ekkert launungarmál að þetta helst í hendur. Tímabilið í Noregi hentar mér mjög vel upp á Evrópukeppnina að gera. En ég er samt fyrst og fremst kominn hingað til Molde til að hjálpa liðinu til að vera í toppbaráttu, og taka þátt í öllu sem því fylgir. Félagið hefur orðið meistari þrisvar undanfarin fimm ár og miðað við það er stefnan örugglega sett á að vinna titla, ekki síst fyrst Ole Gunnar er kominn hingað aftur sem þjálfari," sagði Eiður.

Molde er komið í 32ja liða úrslit Evrópudeildar UEFA eftir frábæra frammistöðu í vetur. Liðið mætir Sevilla frá Spáni næstu tvo fimmtudaga en Eiður er ekki löglegur í þeim leikjum.

„Nei, ég má víst ekki spila þá en mér skilst að ef liðið kæmist áfram, þá myndi ég mega spila í 16-liða úrslitunum. Þá er bara að vona að það takist," sagði Eiður Smári Guðjohnsen.

Hér má sjá mynd frá æfingu Molde í dag og aðra af Solskjær og Eiði:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert