Klopp gerði hræðileg mistök

Klopp þakkar stuðningsmönnum Liverpool fyrir stuðninginn eftir leikinn í gær.
Klopp þakkar stuðningsmönnum Liverpool fyrir stuðninginn eftir leikinn í gær. AFP

Sparkspekingurinn og fyrrverandi leikmaður Arsenal, Paul Merson, telur að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hafi gert hræðileg mistök fyrir leik liðsins gegn Villareal í Evrópudeildinni í knattspyrnu í gær.

Enginn sóknarmaður Liverpool byrjaði leikinn en þeir Daniel Sturridge og Christian Benteke sátu á varamannabekknum en Roberto Firmino lék sem fremsti maður. Það þótti Merson ekki góð ákvörðun.

„Ég held að hann hafi gert mistök,“ sagði Merson þegar hann var spurður hvort Klopp hefði átt að byrja með sóknarmann inn á vellinum í gær en Villareal sigraði Liverpool 1:0 en eina mark leiksins kom á síðustu mínútunni.

„Þegar þú leikur á útivelli í Evrópukeppni verðurðu að reyna að skora mark. Það er svo mikilvægt að skora á útivelli í Evrópukeppni og mér finnst úrslitin vera frábær fyrir Villareal. Þannig að mér finnst Klopp hafa gert hræðileg mistök,“ bætti Merson við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert