Real mætir grönnum sínum í úrslitum

Það verða Real Madrid og Atlético Madrid sem spila til úrslita í Meistaradeild Evrópu þetta árið, en það var ljóst eftir 1:0 sigur Real á Manchester City í síðari leik liðanna í undanúrslitum í kvöld.

Markalaust var í fyrri viðureign liðanna, City varð fyrir áfalli strax á tíundu mínútu í kvöld þegar fyrirliðinn Vincent Kompany fór meiddur af velli. Eina mark leiksins kom svo á tuttugustu mínútu, þegar skot eða jafnvel fyrirgjöf Gareth Balef ór af Fernando og þaðan yfir Joe Hart í marki City.

Fernandinho átti skot í stöng á marki Real skömmu fyrir leikhlé og í síðari hálfleik átti Gareth Bale skalla í slá á marki City. Mörkin urðu hins vegar ekki fleiri og vann Real Madrid því einvígið 1:0.

Real og Atlético Madrid leiða því saman hesta sína í úrslitaleiknum sem fram fer á San Síró í Mílanó þann 28. maí.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

90. Leik lokið. Real Madrid leikur til úrslita!

85. Tíminn að hlaupa frá City. Agüero með tilraun sem fer rétt framhjá, en betur má ef duga skal. City-menn hafa einfaldlega ekki verið nógu líklegir til afreka í kvöld.

68. Sláin! Gareth Bale skallar að marki en sláin er fyrir. Boltinn berst þaðan til Ronaldo sem kemur boltanum í netið, en virtist slá hann inn. Markið því dæmt af.

52. Real heldur áfram að sækja. Joe Hart var nú að verja frá Luka Modric í algjöru dauðafæri! Sergio Agüero hefur ekki verið áberandi en það er nauðsynlegt fyrir City að hann fari í gang.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

45. Hálfleikur. City þarf að sækja eftir hlé.

41. Stöngin! City-menn eru að bíta frá sér. Fernandinho á nú þrumuskot fyrir utan teig sem smellur í stönginni og fer þaðan afturfyrir endamörk.

35. Mark dæmt af Real. Eftir aukaspyrnu kemur Pepe boltanum yfir línuna, en er dæmdur rangstæður.

20. Mark! Staðan er 1:0. Heimamenn eru komnir yfir. Gareth Bale með skot að marki sem fer af Fernando og í netið. Fyrirliðinn farinn af velli og liðið lent undir. Erfið byrjun fyrir City.

10. Slæmar fréttir fyrir City. Fyrirliðinn Vincent Kompany fer meiddur af velli strax á tíundu mínútu. Eliaquim Mangala kemur inn í vörnina í hans stað.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan.

Real Madrid: Navas, Carvajal, Ramos, Pepe, Marcelo, Kroos, Modric, Isco, Ronaldo, Jese, Bale.

Man City: Hart, Sagna, Kompany, Otamendi, Clichy, Fernando, Fernandinho, Navas, Toure, De Bruyne, Aguero.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert