Vilja banna gervigras

Sofiane Boufal meiddist alvarlega í hné í leik á gervigrasvelli.
Sofiane Boufal meiddist alvarlega í hné í leik á gervigrasvelli. AFP

Talsverð umræða hefur verið um það eftir 1. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu hvort kominn sé tími til þess að fleiri knattspyrnufélög leggi gervigras í stað náttúrulegs grass á keppnisvelli sína.

Á Norðurlöndum er orðið nokkuð algengt að lið spili á gervigrasvöllum en í Frakklandi er stefnan tekin í aðra átt. Samtök knattspyrnumanna í Frakklandi, UNFP, hafa nú farið fram á það að bannað verði að spila á gervigrasi í efstu deild landsins. Segja þau að gervigras auki hættuna á meiðslum, en nýverið meiddist Sofiane Boufal, miðjumaður Lille, alvarlega í hné í leik gegn Lorient sem spilar heimaleiki sína á gervigrasi.

„UNFP skorar á LFP [frönsku deildina] að sjá til þess að öll félög í 1. deild séu með náttúrulegt gras á sínum heimavelli frá og með byrjun næstu leiktíðar,“ sagði í yfirlýsingu UNFP.

Lorient hefur þegar gefið út áætlanir um að skipta gervigrasi sínu út fyrir náttúrulegt gras í sumar, og stjórn frönsku deildarinnar gefið sterklega til kynna að bannað verði að spila á gervigrasi í tveimur efstu deildum landsins frá og með árinu 2018. Jacques Rousselot, forseti Nancy, segir að félagið ætli sér hins vegar að vera áfram með gervigras á næstu leiktíð, en Nancy tryggði sér nýverið sæti í 1. deild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert