Enn bíða Elmar og félagar eftir titli

Theódór Elmar Bjarnason.
Theódór Elmar Bjarnason. Ljósmynd/agf.dk

FC København varð í dag danskur bikarmeistari þegar liðið sigraði landsliðsmanninn Theódór Elmar Bjarnason og hans félaga í AGF frá Árósum 2:1. Leikið var á Parken í Kaupmannahöfn.

Danski landsliðsmaðurinn William Kvist skoraði sigurmarkið þegar 12 mínútur voru til leiksloka. Nicolai Jørgensen, annar danskur landsliðsmaður, kom København yfir á 29. mínútu en Morten „Duncan“ Rasmussen jafnaði metin fyrir AGF.

Ducan-viðurnefnið fékk kappinn á sínum yngri árum vegna líkinda sinna við skoska framherjann stóra og stæðilega, Duncan Ferguson.

Theódór Elmar lék fyrstu 63 mínúturnar fyrir AGF sem var afar vel stutt af stuðningsmönnum sínum enda liðin 20 ár frá síðasta titli félagsins.

Það dugði hins vegar ekki til og stórliðið frá Kaupmannahöfn var sigur úr býtum og vann sinn sjöunda bikarmeistaratitil í sögunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert