Kári skoraði í grátlegu bikarúrslitatapi

Kári Árnason í búningi Malmö.
Kári Árnason í búningi Malmö. AFP

Kári Árnason og Viðar Örn Kjartansson þurftu að sætta sig við grátlegt tap í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik sænska bikarsins í knattspyrnu gegn Häcken í dag. Lokatölur eftir venjulegan leiktíma urðu 2:2 eftir að Malmö hafði komist í 2:0 forystu.

Vítaspyrnukeppnin fór í sjö spyrnur á lið þar sem Kári var á meðal þeirra sem skoruðu. Spyrna Kára var sú sjötta í röðinni.

Viðari Erni var skipt út af á 100. mínútu, en hann var líflegur í sóknarlínu Malmö í leiknum. Þessi sömu lið mættust í síðustu umferð sænsku deildarinnar. Þar hafði Malmö betur 3:0 þar sem Viðar Örn skoraði öll mörkin.

Malmö komst í 2:0 á fimm mínútna kafla í fyrri hálfleik, á 39. mínútu og 44. mínútu, eftir mörk frá Markus Rosenberg og Magnus Wolff Eikrem.

Á 51. mínútu fékk hins vegar Oscar Lewicki, miðjumaður Malmö rautt spjald og liðsmenn Häcken nýttu sér heldur betur liðsmuninn.

Þeir komu til baka með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla líkt og Malmö gerði í fyrri hálfleik.

Fyrst skoraði Demba Savage á 61. mínútu og síðan Nasiru Mohammed á 66. mínútu, 2:2 og Häcken allt í einu komið í kjörstöðu manni fleiri.

Kári Árnason sýndi frábæra takta 10 mínútum fyrir leikslok þegar hann bjargaði marki fyrir Malmö með því að verja boltann afar lipurlega í teignum. Þrátt fyrir að vera manni færri sóttu leikmenn Malmö meira á lokamínútunum þar sem Viðar Örn var áberandi en án þess að takast að skora.

Framlengja þurfti því leikinn þar sem hvorugu liðinu tókst að skora. Í vítaspyrnukeppnini voru það leikmenn Häcken sem báru sigur úr býtum.

Viðar Örn Kjartansson
Viðar Örn Kjartansson mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert