Þrír Íslendingar í bikarúrslitum

Theódór Elmar Bjarnason átti stóran þátt í að koma AGF …
Theódór Elmar Bjarnason átti stóran þátt í að koma AGF í bikarúrslitaleikinn. Ljósmynd/Foto Olimpik

Bikarúrslitaleikirnir í sænsku og dönsku knattspyrnunni fara fram í dag og þrír Íslendingar munu taka þátt í þeim.

Malmö og Häcken leika til úrslita í sænsku bikarkeppninni klukkan 13.30 að íslenskum tíma en hann fer fram á heimavelli Malmö, Swedbank Stadion. Viðar Örn Kjartansson og Kári Árnason eru báðir klárir í slaginn með Malmö sem er í öðru sæti úrvalsdeildarinnar með 15 stig eftir 7 umferðir á meðan Häcken er í fjórtánda og þriðja neðsta sæti með 6 stig.

Viðar skoraði sigurmark Malmö gegn meisturum Norrköping, 1:0, í átta liða úrslitum keppninnar í mars en í undanúrslitum bar liðið síðan sigurorð af Kalmar, 3:2, á útivelli.

Í Danmörku eru það AGF frá Árósum og FC Köbenhavn sem leika til úrslita og það er á þjóðarleikvanginum Parken, sem jafnframt er heimavöllur FCK. Sú viðureign hefst klukkan 15 að íslenskum tíma.

Theódór Elmar Bjarnason er í hópi AGF en hann átti stóran þátt í að koma liðinu í úrslitaleikinn þar sem hann skoraði í báðum undanúrslitaleikjunum gegn AaB. Fyrst í 2:0 sigri í Álaborg og svo jafnaði Elmar í 2:2 í uppbótartíma í seinni leik liðanna í Árósum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert