Guardiola segir uppljóstrara vera í Bayern

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri þýska liðsins Bayern München, segir að uppljóstrari sé innan félagsins sem kjafti frá því sem gerist innan klefans hjá liðinu.

Guardiola var spurður út í meint atvik þar sem hann var sagður hafa hellt sér yfir sjúkraþjálfara síns liðs og lækna og spurt hvers vegna í ósköpunum þeim hafi ekki tekist að koma sínum mönnum fyrr í gang á leiktíðinni. Sagt var frá í fréttum í Þýskalandi að minnstu hefði munað að komið hefði til átaka.

Var hann meðal annars sagður hafa spurt sitt læknateymi hvernig spænsku læknunum tókst að gera Diego Godín, leikmann Atlético Madrid á kláran á svo skömmum tíma á meðan hann þarf sjálfur að búa við það að vera lengi án manna eins og Hollendingsins Arjen Robben.

„Vanalega, þá er það þannig að það sem fram fer inni í klefa helst þar,” sagði Guardiola um sögusagnirnar aðspurður og neitaði þeim ekki.

„Sá sem hefur talað, hefur gert það til þessa að koma höggi á mig. En ég verð ekki hérna á næstu leiktíð og því er þetta ekki mitt vandamál, heldur vandamál Bayern. Þetta hefur gerst margoft á síðustu þremur árum,” sagði Guardiola.

„Það er eðlilegt fyrir mig að tala við leikmenn mína og starfsfólk og tjá þeim mína skoðun, en þetta fólk sem er að tala er að reyna að koma höggi á mig. Kannski verður þessi manneskja ennþá hér á næstu leiktíð en hefur ekki gert sér grein fyrir að hún er ekki að særa mig, heldur félagið og liðið,” sagði Guardiola enn fremur.

Guardiola kom Bayern München í undanúrslit Meistaradeildarinnar öll árin við stjórnvölinn hjá Bayern en aldrei í úrslitin. Hann hefur unnið þýsku deildina öll árin sín og bikarinn einu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert