„Fögnuðum ekki í hálfleik“

Carlo Ancelotti, fyrrum þjálfari AC Milan.
Carlo Ancelotti, fyrrum þjálfari AC Milan. AFP

Leikmenn ítalska A-deildarliðsins AC Milan fögnuðu ekki í hálfleik gegn enska úrvalsdeildarfélaginu Liverpool er liðin mættust í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í Istanbúl fyrir ellefu árum. Milan var 3:0 yfir í hálfleik en glutraði niður forystunni á nokkrum mínútum í síðari hálfleik.

Úrslitaleikurinn í Istanbúl fer í sögubækurnar sem einhver eftirminnilegasti leikur í sögu fótboltans en ítalska liðið var þremur mörkum yfir þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks en Paolo Maldini kom Milan á bragðið á fyrstu mínútu leiksins áður en argentínski framherjinn Hernan Crespo bætti við tveimur mörkum undir lokin.

Það stefndi allt í þægilegan sigur hjá Milan en Liverpool svaraði með ótrúlegri endurkomu í síðari hálfleik. Steven Gerrard jafnaði metin með skalla áður en Vladimir Smicer bætti við öðru. Xabi Alonso jafnaði svo metin er hann skoraði úr frákasti eftir að brasilíski markvörðurinn Dida hafði varið vítaspyrnu hans.

Liverpool vann leikinn eftir vítaspyrnukeppni þar sem Jerzy Dudek varði síðustu spyrnu Andriy Shevchenko. Carlo Ancelotti, fyrrum þjálfari Milan, segir það ekki rétt að leikmenn liðsins hafi byrjað að fagna sigrinum í hálfleik.

„Það hafa verið miklar pælingar í kringum þennan leik. Það er rétt að við vorum afar ánægðir í hálfleik í stöðunni 3:0, en við vorum ákveðnir í því að halda áfram að spila okkar bolta. Margir segja að við höfum fagnað í hálfleik en það gerðum við alls ekki,“ sagði Ancelotti.

„Ég talaði við leikmennina í nokkrar mínútur og sagði þeim að halda áfram að einbeita sér og spila sama bolta og þeir gerðu í fyrri hálfleik. Ég hef horft aftur á fyrri hálfleikinn en braut sjónvarpið heima þegar ég horfði á síðari hálfleikinn,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert