Real og Man. Utd verðmætust

Verðmætustu félög heims etja kappi.
Verðmætustu félög heims etja kappi. CESAR MANSO

Samkvæmt nýrri skýrslu KPMG um verðmæti evrópskra knattspyrnufélaga eru stórveldin Real Madrid og Manchester United verðmætustu knattspyrnufélögin í Evrópu.

Heildarvirði stærstu knattspyrnufélaga Evrópu er samtals 26,3 milljarðar evra. Real Madrid og Manchester United eru efst á lista, en heildarvirði hvors félags er um 2,9 milljarðar evra. Virði þriggja verðmætustu félaganna, Real Madrid, Manchester United og Barcelona, nemur um þriðjungi af heildarvirði allra 32 knattspyrnufélaganna sem eru metin í skýrslunni.

Ensku félögin stærst

Ensku knattspyrnufélögin leiða listann en samanlagt virði þeirra nemur yfir 10 milljörðum evra sem er um 40% af samanlögðu virði allra 32 félaganna. Arsenal, Manchester City, Chelsea og Liverpool skipta 5-8 sæti listans. Spænsku félögin fylgja þeim ensku á eftir, heildarvirði þeirra er um 6,6 milljarðar evra og þar nemur virði risanna í Barcelona og Real Madrid um 85% af spænska hlutanum. Atlético de Madrid, mótherji Real Madrid í Meistaradeild Evrópu og helsti keppinautur risanna í spænsku A-deildinni, er í 14. sæti á listanum og er virði þeirra um 590 milljónir evra.

Flest félögin í könnuninni koma frá Ítalíu og Englandi, sjö félög frá hvoru landi. Heildarvirði ítölsku félaganna er þó um 70% lægra en þeirra ensku. 

Þetta er fyrsta verðmatsskýrsla KPMG um evrópsk knattspyrnufélög og er markmiðið að gefa vísbendingu um virði 32 stærstu knattspyrnufélaga Evrópu. Skýrslan er gefin út í tilefni af úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á milli Real Madrid og Atlético Madrid næsta laugardag.

Grunnur skýrslunnar er greining á opinberum upplýsingum um tiltekin félög fyrir knattspyrnutímabilin 2013-2014 og 2014-2015. Skýrslan tekur ekki mið af árangri félaganna á nýafstöðnu knattspyrnutímabili.

Fimmtán verðmætustu félög Evrópu eru eftirfarandi:

1. Real Madrid og Manchester United - 2,905 milljarðar evra

3. Barcelona - 2,758 milljarðar evra

4. Bayern München - 2,153 milljarðar evra

5. Arsenal - 1,663 milljarðar evra

6. Manchester City - 1,620 milljarðar evra

7. Chelsea - 1,453 milljarðar evra

8. Liverpool - 1,273 milljarðar evra

9. Juventus - 983 milljarðar evra

10. Paris Saint-Germain - 843 milljónir evra

11. Borussia Dortmund - 830 milljónir evra

12. Tottenham Hotspur - 801 milljón evra

13. Schalke 04 - 624 milljónir evra

14. Atlético de Madrid - 592 milljónir evra

15. AC Milan - 545 milljónir evra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert