Enginn í hefndarhug fyrir úrslitaleikinn

Þrátt fyrir að hann hafi gert góða hluti á sínum …
Þrátt fyrir að hann hafi gert góða hluti á sínum fimm mánuðum sem stjóri Real Madrid, gæti starf Zinedine Zidane oltið á úrslitum leiksins í kvöld. AFP

Sautján dögum áður en Cristiano Ronaldo og Pepe mæta Íslendingum, með portúgalska landsliðinu í fyrsta leik á EM, leika þeir til úrslita í kvöld kl. 18.45 í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu.

Madridar-liðin Real og Atlético mætast á San Siro í Mílanóborg, rétt eins og þau gerðu í Lissabon fyrir tveimur árum þar sem Real vann 4:1 í framlengingu.

Óttast var að Ronaldo yrði ekki klár í slaginn í kvöld, eftir að hann haltraði af æfingu Real fyrr í vikunni, en hann segist í góðu lagi: „Það er allt í lagi með mig. Þetta var bara minni háttar atvik, smáhögg,“ sagði Ronaldo. Real verður hins vegar án franska miðvarðarins Raphaels Varane.

Þrátt fyrir að hann hafi gert góða hluti á sínum fimm mánuðum sem stjóri Real Madrid, gæti starf Zinedine Zidane oltið á úrslitum leiksins í kvöld. Slík er pressan hjá spænska stórveldinu.

„Það er pressa en ég kann vel við það. Ég nálgast þetta af þolinmæði, yfirvegun og ákveðni. Við spilum til úrslita og allir þeir sem hafa áhuga á fótbolta vilja upplifa það að spila úrslitaleiki,“ sagði Zidane.

Hjá Atlético eru engin meiðsli, öfugt við það sem var í úrslitaleiknum fyrir tveimur árum, þegar hálfmeiddur Diego Costa hóf leik en varð að fara af velli eftir nokkrar mínútur. Diego Simeone, stjóri Atlético, segir engan hefndarhug í sér og sínum mönnum eftir tapið fyrir tveimur árum.

„Það er engin hefnd til í fótbolta, eða í lífinu almennt, heldur bara ný tækifæri. Hefnd er neikvætt orð, því það tengist tapi, en nýtt tækifæri snýst um jákvæðni, sjálfstraust og það sem framundan er, og það viljum við sýna í úrslitaleiknum,“ sagði Simeone. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert