Lionel Messi líkir sér við Stephen Curry

Lionel Messi
Lionel Messi AFP

Argentínumaðurinn Lionel Messi líkir sér við Bandaríkjamanninn Stephen Curry í viðtali við Sport Illustrated. Segir hann á milli þeirra ríkja gagnkvæma virðingu og þeir hafi sent hvorum öðrum áritaðar treyjur. 

Messi mun spila fyrir Argentínu í Kaliforníu í júní en þar er Golden State Warriors, lið Curry, staðsett. Nánar tiltekið í Oakland. Messi verður þátttakandi í stóru móti sem haldið er í Bandaríkjunum fyrir þjóðir frá S-Ameríku auk heimamanna og Mexíkó. 

„Fótboltinn verður skiljanlega í fyrirrúmi hjá mér þegar ég verð á svæðinu en hluti af mér vonast til þess að hitta Stephen Curry hjá Golden State Warriors. Að sjá hann spila körfubolta er töfrum líkast. Allir elska hvernig hann spilar hvort sem það eru aðdáendurnir, samherjar eða andstæðingar. Við erum svipaðir verandi báðir lágvaxnir og jafnvel hvað leikstíl varðar. Í desember sendi hann mér áritaða Warriors treyju. Í apríl sendi ég honum til baka áritaða treyju til að endurgjalda greiðann. Ef þú horfir á Curry spila, eða bara hita upp fyrir leiki, þá tekurðu eftir því að samband hans og boltans er mjög sérstakt. Hugur hans og líkami virðast vera á sömu bylgjulengd og boltinn. Ég reyni einnig að hafa þessa tilfinningu fyrir boltanum í minni íþrótt,“ sagði Messi meðal annars um Curry.

Stephen Curry
Stephen Curry AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert