Stjörnumaðurinn sigraði Síle

Duwayne Kerr, markvörður Stjörnunnar og Jamaíka.
Duwayne Kerr, markvörður Stjörnunnar og Jamaíka. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Duwayne Kerr, markvörður Stjörnunnar, tók þátt í óvæntum útisigri Jamaíka gegn Síle í vináttulandsleik þjóðanna í knattspyrnu í gærkvöld, 2:1, en leikið var í Vina del Mar í Síle.

Kerr, sem kom til liðs við Garðbæinga fyrr í þessum mánuði, lék seinni hálfleikinn og fékk á sig mark þegar Nicolás Castillo minnkaði muninn fyrir Sílebúa á 82. mínútu leiksins.

Alexis Sánchez, framherji Arsenal, lék allan leikinn í framlínu heimamanna en náði ekki að komast á blað.

Clayton Donaldson, leikmaður Birmingham á Englandi, og Joel Grant, leikmaður Exeter á Englandi, skoruðu mörk Jamaíkamanna sem eru á leið í Ameríkubikarinn, Copa America, þar sem þeir mæta Venesúela, Mexíkó og Úrúgvæ 5., 10. og 14. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert