Bjargað frá mannræningjunum

Alan Pulido fagnar marki í leik.
Alan Pulido fagnar marki í leik. AFP

Mexíkóska knattspyrnumanninum Alan Pulido, sem leikur með Olympiacos í Grikklandi, hefur verið bjargað frá mannræningjum í heimalandi sínu en honum var rænt í fyrrinótt.

Pulido var rænt ásamt unnustu sinni þegar hann var á leið heim úr samkvæmi skammt frá Ciudad Victoria í norðaustur hluta landsins. Henni  var hent út úr bíl ræningjanna fljótlega eftir atvikið.

Pulido er sagður heill á húfi en myndir hafa birst af honum í mexíkóskum fjölmiðlum með umbúðir um höfuðið og sagt að hann hefði verið fluttur á sjúkrahús til skoðunar.

Hann lék við hlið Alfreðs Finnbogasonar með Olympiacos fyrri hluta síðasta tímabils. Pulido er 25 ára og hefur skorað 4 mörk í 6 landsleikjum fyrir Mexíkó en hann gerði þrennu gegn Suður-Kóreu í fyrsta landsleik sínum fyrir tveimur árum. Hann var í leikmannahópi Mexíkó á HM í Brasilíu sumarið 2014 en kom ekkert við sögu.

Fyrrverandi liðsfélaga Alfreðs rænt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert