Eigum bara einn leikmann í heimsklassa

Pelé er aðdáandi Lionels Messis.
Pelé er aðdáandi Lionels Messis. AFP

Brasilíska knattspyrnugoðsögnin Pelé segir að hinn argentínski Lionel Messi sé sinn uppáhaldsleikmaður í allri knattspyrnusögunni.

Pelé var í Mílanó í síðustu viku að kynna nýja kvikmynd sem byggir á ævi þessa þrefalda heimsmeistara. Þar ræddi hann við La Gazzetta della Sport og var spurður um hver besti leikmaður sögunnar væri:

„Það er erfitt að segja því það hafa alltaf komið nýir leikmenn sem hafa verið bornir saman við mig. Fyrst var það [Alfredo] Di Stefano, síðan [Johan] Cruyff, [Franz] Beckenbauer, Bobby Charlton, [Diego] Maradona og nú Messi. Leo er sá sem ég kann best við af þeim. Hann kemst næst fullkomnun,“ sagði Pelé.

„Messi er uppáhaldsleikmaður minn, en Cristiano Ronaldo og Neymar eru líka góðir. Þeir eru ólíkir og fótboltinn hefur breyst,“ sagði Pelé.

Pelé tók undir það að kalla mætti Francesco Totti „hinn ítalska Pelé“. Hann ræddi líka um síðasta heimsmeistaramót þar sem að Brasilía tapaði með skelfilegum hætti fyrir Þýskalandi í undanúrslitum, á heimavelli:

„Síðasta HM var mjög sorglegt. Við fengum á okkur sjö mörk gegn Þýskalandi. Það er allt í lagi að tapa en ekki að fá á sig sjö mörk,“ sagði Pelé.

„Ég var 9 ára þegar ég sá pabba minn gráta í fyrsta sinn. Það var eftir Maracanazo - þegar Brasilía tapaði fyrir Úrúgvæ í lokaleiknum á HM 1950. Fyrir tveimur árum, þegar við töpuðum með niðurlægjandi hætti, 7:1 gegn Þýskalandi, sá sonur minn mig næstum því gráta,“ sagði Pelé.

„Þetta var óútskýranlegt stórslys hjá Brasilíu. Kannski vanmátum við leikinn við Kólumbíu. Við höfum tvisvar tapað HM á heimavelli  1950 og 2014. Núna er Neymar eini heimsklassaleikmaðurinn okkar, og það er of lítið,“ sagði Pelé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert