Juanfran þakkar stuðninginn

Juanfran, leikmaður Atlético Madrid, sorgmæddur eftir leik liðsins gegn Real …
Juanfran, leikmaður Atlético Madrid, sorgmæddur eftir leik liðsins gegn Real Madrid um helgina. AFP

Juanfran, leikmaður Atlético Madrid, hefur verið afar sorgmæddur síðan hann brenndi af vítaspyrnu í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Real Madrid á laugardaginn. Juanfran segir þó að viðbrögð stuðningsmanna Alético Madrid hafi hjálpað sér að komast yfir vonbrigðin. 

„Ég mun aldrei gleyma því hversu fljót þið voruð að fyrirgefa mér eftir að ég brenndi af vítaspyrnunni. Að sjá ykkur gráta með mér hjálpaði mér mikið. Ég vil líka þakka samherjum mínum og knattspyrnustjóranum fyrir að standa við bakið á mér,“ sagði Juanfran í opnu bréfi til stuðningsmanna Altético Madrid. 

„Ég vil þakka ykkur fyrir að hafa alltaf haft trú á mér og liðinu og það hvernig þið styðjið okkur í hverjum einasta leik. Ég sagði það fyrir tveimur árum að við myndum fara aftur í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og ég lofa ykkur því, hér og nú að einn daginn mun Gabi lyfta þessum bikar,“ sagði Juanfran enn fremur í bréfinu.

„Ég elska ykkur og takk fyrir allt. ÁFRAM ATLÉTICO!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert