Haukur skoraði hjá Ögmundi

Haukur Heiðar Hauksson.
Haukur Heiðar Hauksson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Haukur Heiðar Hauksson skoraði fyrsta mark AIK í dag þegar liðið vann öruggan útisigur á Hammarby, 3:0, í Stokkhólmsslag í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Haukur skoraði fallegt mark strax á 11. mínútu hjá félaga sínum í íslenska landsliðshópnum, Ögmundi Kristinssyni. Þeir Birkir Már Sævarsson og Arnór Smárason léku líka með Hammarby og Íslendingarnir fjórir spiluðu allir allan leiktímann.

Eins og fram kom á mbl.is fyrir helgina vill enska B-deildarfélagið Leeds United fá Hauk í sínar raðir og hefur gert AIK tilboð í hann.

AIK fór upp í fjórða sætið með sigrinum, upp fyrir Gautaborg sem getur svarað fyrir það seinna í dag. Malmö er með 32 stig, Norrköping 31, Örebro 27, AIK 27 og Gautaborg 25 í efstu sætunum.

Ekkert gengur hjá Hammarby sem er í þriðja neðsta sæti með 14 stig en Falkenberg og Gefle eru á  botninum með 8 stig hvort.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert