Mascherano fer hvergi

Javier Mascherano.
Javier Mascherano. AFP

Argentínski knattspyrnumaðurinn Javier Mascherano er ekki á leið frá Barcelona eins og fregnir voru um fyrr í sumar og nú hefur hann framlengt samning sinn við félagið til þriggja ára, eða til 2019.

Barcelona keypti Mascherano frá Liverpool fyrir sex árum. Hann er nú 32 ára gamall og hefur verið í mikilvægu hlutverki, ýmist sem miðvörður eða varnartengiliður.

Hann hefur spilað 171 deildaleik fyrir félagið en á enn þá eftir að skora mark. Reyndar hefur Mascherano aðeins skorað eitt deildamark á öllum sínum ferli en það gerði hann fyrir Liverpool á sínum tíma. Þá spilaði hann 94 leiki fyrir félagið í ensku úrvalsdeildinni.

Ferilinn í Evrópu hóf Mascherano hins vegar hjá West Ham þar sem hann var seinni hluta ársins 2006 en fór til Liverpool skömmu eftir að íslenskir kaupsýslumenn keyptu félagið seint á því ári.

Mascherano á að baki 129 landsleiki fyrir Argentínu og þar hefur hann reynst markheppnari en með félagsliðum sínum því hann hefur þrisvar náð að skora í landsleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert