Porto sló út Roma í Meistaradeildinni

Radja Nainggolan hjá Roma og Miguel Layun hjá Porto í …
Radja Nainggolan hjá Roma og Miguel Layun hjá Porto í leiknum í kvöld. AFP

Porto tryggði sér í kvöld sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla þegar liðið vann stórsigur á Roma á Ítalíu 3:0 og samtals 4:1. Dundalk, sem sló FH út, er loks úr leik eftir 3:1 tap samtals fyrir Legia frá Varsjá.

Dundalk fer í riðlakeppni Evrópudeildarinnar eins og hin liðin sem biðu lægri hlut í kvöld.

Mónakó, Celtic og Ludogorets Razgrad eru einnig komin áfram í riðlakeppnina. Mónakó vann spænska liðið Villareal 1:0 á heimavelli og samtals 3:1. Celtic tapaði 2:0 á útivelli fyrir Hapoel Beer Sheva en ekki kom það að sök fyrir Skotana sem fóru áfram 5:4 samanlagt. Ludogorets Razgrad náði 2:2 jafntefli gegn Viktoria Plzen á útivelli og vann samtals 4:2. 

Heilmikið gekk á í Rómarborg í kvöld en í stöðunni 1:0 fyrir Porto fór rauða spjaldið tvívegis á loft. Daniele De Rossi var rekinn út af á 39. mínútu og Emerson á 50. mínútu. Roma spilaði því með níu menn síðustu fjörtíu mínútur leiksins og það nýttu Portúgalirnir sér en Porto hefur tvívegis sigrað í keppninni í gegnum tíðina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert