Griezmann býst við að verða kjörinn

Antoine Griezmann súr á meðan Portúgalar fagna Evrópumeistaratitli sínu á …
Antoine Griezmann súr á meðan Portúgalar fagna Evrópumeistaratitli sínu á EM 2016. AFP

Knattspyrnufólk ársins 2015-2016 í Evrópu verður útnefnt við hátíðlega athöfn í Mónakó á morgun. Antoine Griezmann, framherji Atlético Madrid og franska landsliðsins, er einn þriggja sem kemur til greina í valinu karlamegin og hann telur sig klárlega verðskulda nafnbótina.

Hinir tveir sem gætu hreppt hnossið eru portúgalski landsliðsmaðurinn Cristiano Ronaldo og velski landsliðsmaðurinn Gareth Bale sem báðir leika með Real Madrid en það eru UEFA og ESM, Samtök evrópskra íþróttafjölmiðla, sem standa að kjörinu.

Griezmann skoraði 22 mörk í spænsku 1. deildinni og varð markahæsti leikmaður Evrópumótsins sem fram fór í Frakklandi í sumar og hann telur þessi afrek sín geta dugað til þess að vera kjörinn besti leikmaður Evrópu.

„Ég er afar stoltur af því að vera einn þeirra sem kemur til greina í þessu kjöri. Það þýðir að ég er á rétti leið með feril minn og ég stefni að því að halda áfram á þeirri braut. Ég vil ekki hljóma hrokafullur, en ég tel mig hafa átt góðu gengi að fagna bæði með félagsliði mínu og landsliðinu og á nafnbótina alveg jafn mikið skilið og hinir tveir að mínu mati,“ sagði Griezmann í samtali við spænska fjölmiðilinn 24sata.

Líklegt verður þó að telja að 35 mörk Ronaldo í spænsku 1. deildinni og sú staðreynd að Real Madrid varð sigurvegari í Meistaradeild Evrópu og Portúgal varð þar að auki Evrópumeistari leiði til þess að Ronaldo haldi heim á leið með verðlaunin í fanginu.

Handhafar verðlaunanna undanfarin fimm ár eru eftirtaldir.  

2010–11 - Lionel Messi
2011–12 - Andres Iniesta
2012–13 - Franck Ribery 
2013–14 - Cristiano Ronaldo
2014–15 - Lionel Messi

Í kvennaflokki eru það Ada Hegerberg frá Noregi, Amadine Henry frá Frakklandi og Dzsenifer Marozán frá Þýskalandi sem koma til greina sem besta knattspyrnukona Evrópu 2015-16.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert