Algjör bónus á mínum ferli

Ada Hegerberg ásamt móður sinni og Cristiano Ronaldo eftir fréttamannafundinn …
Ada Hegerberg ásamt móður sinni og Cristiano Ronaldo eftir fréttamannafundinn í kvöld. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Ada Hegerberg frá Noregi sem var fyrir stundu útnefnd knattspyrnukona Evrópu 2015-16 í kjöri UEFA og ESM, Samtaka evrópskra íþróttafjölmiðla í Mónakó, segir að þessi verðlaun séu hreinn bónus fyrir hana eftir ógleymanlegt tímabil.

Hegerberg er aðeins 21 árs gömul en varð markadrottning Frakklands og Meistaradeildar Evrópu, ásamt því að verða franskur meistari og bikarmeistari með Lyon, og svo Evrópumeistari með liðinu í vor.

Hún fékk 13 atkvæði í lokaumferð kjörsins, Amandine Henry frá Frakklandi fékk 4 atkvæði og Dzsenifer Marozsán frá Þýskalandi fékk 3 atkvæði frá þeim 20 íþróttafréttamönnum frá jafnmörgum löndum sem skipuðu dómnefnd UEFA og ESM.

Á fréttamannafundi í Grimaldi Forum strax eftir kjörið sagði Hegerberg að markmiðið hefði verið að vinna alla titla sem í boði voru.

„Ég einbeitti mér að því að vinna allar keppnir með Lyon og við náðum markmiðum okkar. Þar ber hæst sigurinn í Meistaradeildinni, ekkert getur jafnast á við að vinna bestu keppni í heimi. En að fá þessa viðurkenningu hérna í dag er algjör bónus á mínum ferli og ég er ákaflega þakklát.

Sennilega er ég kosin vegna þess að mér tókst að skora mörg mörk, enda er það mitt stærsta hlutverk sem framherji að skora mörk, en hafa náð í leiðinni að vinna þessa frábæru þrennu. Ég tek afar auðmjúk við viðurkenningunni en hún hvetur mig jafnframt til að halda mínu striki,“ sagði norski framherjinn en hún er búin að skora 178 mörk í 205 mótsleikjum fyrir félagslið og landslið og er þó ekki nema 21 árs gömul.

Spurð hvort hún stefndi ekki á að vinna titla með norska landsliðinu, sem fékk silfur á EM fyrir þremur árum, svaraði Hegerberg:

„Auðvitað vill maður vinna allt, með félagsliði og landsliði, en við eigum mikla vinnu fyrir hendi í Noregi ef við ætlum að vinna stórmót á næstu árum. Samt tel ég að við eigum sömu möguleika og flestir aðrir. Við þurfum að þróa leikstíl okkar, nútímafótbolti byggir á góðri sendingagetu, og við náum vonandi að verða með nægilega sterkt landslið á næstu árum til að vinna stórmót.“

Noregur komst ekki á Ólympíuleikana eftir að hafa tapað í forkeppni í vor. Hegerberg var spurð hvort það hefði ekki verið erfitt að fylgjast með samherjum sínum í Lyon á fullri ferð í Ríó.

„Það hvatti mig bara áfram – ég er staðráðnari en nokkru sinni fyrr í að leggja á mig enn meiri vinnu til að ná stærri markmiðum. Ég fékk í staðinn mánaðarfrí, náði að æfa mjög vel fyrir komandi tímabil með það markmið að verða betri en nokkru sinni áður,“ svaraði Ada Hegerberg, einbeitt á svip.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert