Biðst ekki afsökunar á ummælum sínum

Hope Solo er í sex mánaða banni.
Hope Solo er í sex mánaða banni. AFP

Hope Solo, markvörður bandaríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að hún var úrskurðuð í sex mánaða keppnisbann hjá landsliðinu eftir ummæli sín eftir tapið gegn Svíþjóð í 8-liða úrslitum Ólympíuleikanna í Ríó.

Solo hefur oft áður komið við sögu í fjölmiðlum fyrir ósæmilega hegðun. Hún var handtekin og kærð fyrir líkamsárás fyrir tveimur árum. Hún réðst þá á hálfsystur sína og frænda sinn en málið er enn í ferli.

Bandaríska landsliðið, sem varð ólympíumeistari ári 2012, datt út í 8-liða úrslitum í ár en liðið tapaði í vítaspyrnukeppni fyrir Svíþjóð. Solo gagnrýndi sænska liðið harðlega eftir leikinn og kallaði leikmenn liðsins bleyður.

Bandaríska knattspyrnusambandið tók ákvörðun í gær og ákvað að setja Solo í sex mánaða keppnisbann. Hún má þó enn leika með félagsliði sínu en Solo er allt annað en sátt með þennan dóm og eru fjölmargir blaðamenn í Bandaríkjunum hissa á þessari ákvörðun.

Solo baðst ekki afsökunar á framferði sínu í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í morgun en hana má lesa hér fyrir neðan.

„Í 17 ár tileinkaði ég bandaríska kvennalandsliðinu líf mitt og vann mína vinnu sem atvinnumaður þá einu leið sem ég kunni  með ástríðu, þrautseigju og þeirri skuldbindingu að gerast besti markvörður heims. Ég gerði það ekki bara fyrir landið mitt, heldur til þess að koma íþróttinni á hærra stig fyrir næstu kynslóð. Ég stend fast á mínu og því er ég afar leið yfir ákvörðun bandaríska knattspyrnusambandsins að eyða samningnum mínum,“ sagði Hope Solo í yfirlýsingunni.

„Ég gæti ekki verið sá leikmaður sem ég er, ef ég væri ekki þessi manneskja sem ég er. Jafnvel þótt ég hafi ekki alltaf tekið bestu ákvarðanirnar eða sagt réttu hlutina. Ég vil aðeins það besta fyrir bandaríska landsliðið, leikmennina og þjálfarana og ég mun halda áfram að berjast með sömu ástríðu og ég er vön,“ sagði hún að lokum.

Fyrri fréttir mbl.is um málið:

Hálfs árs bann vegna bleyðu-ummæla

Jafnbiturt og ummæli Ronaldo um Ísland

Þær eru allar bleyður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert