Eiginlega brjáluð tilfinning

Cristiano Ronaldo með verðlaunagripinn á sviðinu í Grimaldi Forum í …
Cristiano Ronaldo með verðlaunagripinn á sviðinu í Grimaldi Forum í Mónakó í dag. AFP

„Ég er að sjálfsögðu hæstánægður með að hafa fengið þessa viðurkenningu eftir ótrúlegt tímabil. En hinir tveir sem voru tilnefndir hefðu líka verðskuldað hana,“ sagði Cristiano Ronaldo eftir að hann var krýndur knattspyrnumaður Evrópu 2015-16 í kjöri UEFA og ESM, Samtaka evrópskra íþróttafjölmiðla, sem lýst var í Mónakó í gær.

Hann hafði betur í lokakosningunni, fékk 40 atkvæði, en Antoine Griezmann frá Frakklandi fékk 8 atkvæði og Gareth Bale frá Wales 7, en 55 íþróttafréttamenn frá jafnmörgum Evrópulöndum greiddu atkvæði í kjörinu.

Ronaldo sagði á fréttamannafundi eftir kjörið að það hefði að sjálfsögðu verið afar sérstakt að vinna bæði Meistaradeild Evrópu með Real Madrid og verða síðan Evrópumeistari með Portúgal í sumar.

„Það er allt öðruvísi að vinna slíkan titil með landsliðinu. Portúgal hafði aldrei áður unnið stóran titil og fyrsta skiptið er alltaf mjög sérstakt. Það voru miklar tilfinningar í gangi hjá félögum mínum, fjölskyldum okkar og öllum Portúgölum. Þetta var eiginlega brjáluð tilfinning og ég grét heilmikið. Að vinna slíkan titil er einstakur árangur,“ sagði Ronaldo sem var fyrirliði portúgalska liðsins, skoraði 3 mörk og lagði upp önnur þrjú fyrir portúgalska liðið sem varð Evrópumeistari í fyrsta skipti. Hann jafnaði markamet Michel Platini sem markahæsti leikmaður í lokakeppni EM frá upphafi og setti nýtt met í leikjafjölda í lokakeppni EM.

Hann fór af velli snemma í úrslitaleiknum vegna meiðsla en var hálfgerður aðstoðarþjálfari á hliðarlínunni seinni hluta leiksins. Spurður um hvort hann hefði metnað fyrir því að gerast þjálfari síðar meir svaraði Ronaldo:

„Nei, ég hugsa ekki um slíkt núna. Ef ég á að svara ykkur á þessari stundu þá vil ég ekki verða fótboltaþjálfari. En ef þið spyrjið mig eftir sjö, átta ár, þá svara ég ykkur kannski játandi. Núna vil ég bara einbeita mér að því að spila fótbolta, það er mín ástríða og það sem ég elska. En maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér - kannski verð ég ótrúlega góður þjálfari!“ sagði Ronaldo og brosti.

Spurður hvernig hægt væri að ná upp einbeitingu og hvatningu til að gera betur, eftir að hafa unnið öll þau verðlaun sem hann hefur gert á ferlinum, svaraði Ronaldo:

„Ég elska að spila fótbolta og set mér alltaf ný markmið fyrir hvert tímabil. Ég er enn fær um að gera áhorfendur ánægða, fólk elskar enn að horfa á mig spila fótbolta. Ég reyni að gera mitt besta, skora mörk og vinna titla. Hvert einstakt ár er áskorun og næsta tímabil verður það líka, nákvæmlega eins og þau fyrri. Áskorunin er að skora mörk og vinna titla í hæsta gæðaflokki.“

Hann var að lokum spurður um möguleika Portúgals á að vinna heimsmeistaratitilinn í Rússlandi, og hló þegar spurningin var borin upp.

„Hva, við vorum bara að vinna Evrópumeistaratitilinn í fyrsta skipti! Nú viljum við bara njóta stundarinnar og gleðjast yfir því afreki. En auðvitað er allt hægt í fótbolta. Það verður mjög erfitt fyrir okkur, heimsmeistarakeppnin er allt annar hlutur, en ég segi að þetta sé mögulegt,“ svaraði Cristiano Ronaldo sem lék á als oddi á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert