Anna skoraði og Kristianstad vann

Anna Björk Kristjánsdóttir skoraði fyrir Örebro í dag.
Anna Björk Kristjánsdóttir skoraði fyrir Örebro í dag. mbl.is/Golli

Kristianstad, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur, komst í dag úr fallsæti sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í fyrsta skipti á tímabilinu þegar liðið lagði Mallbacken 1:0 á útivelli í mikilvægum botnslag.

Kristianstad var neðst fyrir leiki dagsins þegar fjögur neðstu lið deildarinnar mættust innbyrðis. Mia Carlsson skoraði sigurmarkið um miðjan fyrri hálfleik. Sif Atladóttir var að vanda í vörn Kristianstad en var skipt af velli á 75. mínútu.

Kristianstad er nú með 11 stig í þriðja neðsta sætinu en Mallbacken og Umeå eru komin í fallsætin með 9 stig hvort.

Anna Björk Kristjánsdóttir skoraði mark Örebro sem tapaði 2:1 fyrir Piteå og fékk þar á sig úrslitamarkið í uppbótartíma. Anna lék allan leikinn í vörn Örebro sem er með 14 stig, ekki langt fyrir ofan hættusvæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert