Fyrirliðinn ósáttur við söluna á Viðari

Viðar Örn Kjartansson, leikmaður Maccabi Tel-Aviv og Ólafur Garðarsson, umboðsmaður …
Viðar Örn Kjartansson, leikmaður Maccabi Tel-Aviv og Ólafur Garðarsson, umboðsmaður hans. Ljósmynd/twitter

Viðar Örn Kjartansson, markahæsti leikmaður sænsku efstu deildarinnar í knattspyrnu karla, var seldur frá Malmö sem trónir á toppi deildarinnar til ísraelska félagsins Maccabi Tel-Aviv. Markus Rosenberg, fyrirliði Malmö, er ekki sáttur við ákvörðun félagsins að selja markahæsta leikmann liðsins á þessum tímapunkti.

„Salan á Viðari Erni veikir liðið að sjálfsögðu og mér finnst þessi félagaskipti þegar tíu leikir eru eftir af deildinni einkennileg. Eftir tvö ár í Meistaradeild Evrópu ætti félagið ekki að skorta fé og því þykir mér skrýtið að selja hann á þessum tímapunkti,“ sagði Rosenberg í samtali við Expressen.

„Viðar Örn á tvö og hálft ár eftir af samningi sínum við Malmö og verðmæti hans hefði ekki minnkað ef félagið hefði haldið honum þar til tímabilinu lýkur. Þá finnst mér kaupverðið ekki svo hátt að félaginu hafi ekki verið stætt að hafna tilboðinu,“ sagði Rosenberg enn fremur í samtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert