Dagný deildarmeistari með Portland

Dagný Brynjarsdóttir hefur haft mörgu að fagna undanfarið og nú …
Dagný Brynjarsdóttir hefur haft mörgu að fagna undanfarið og nú er hún búin að vinna bandarísku atvinnudeildina með Portland Thorns. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, varð rétt í þessu bandarískur deildarmeistari með Portland Thorns þegar liðið tryggði sér efsta sæti NWSL-atvinnudeildarinnar með 3:1 útisigri á Sky Blue í lokaumferðinni.

Portland hefur verið á eftir Washington Spirit seinni hluta mótsins en þegar Washington tapaði lokaleik sínum fyrr í kvöld var ljóst að Dagnýju og samherjum hennar nægði jafntefli í leiknum í New Jersey í kvöld.

Sky Blue komst yfir í upphafi leiks en bandarísku landsliðskonurnar Allie Long, sem skoraði tvö mörk, og Lindsay Horan tryggðu Portland sigurinn. Dagný hóf leikinn á varamannabekknum en kom inná á 70. mínútu leiksins.

Portland fékk þar með 41 stig, Washington 39, Chicago Red Stars 33 og Western New York Flash 32 stig en þessi fjögur lið leika nú til úrslita um bandaríska meistaratitilinn.

Sigurinn er Portland ákaflega dýrmætur því nú fær liðið að spila sína leiki í úrslitakeppni á sínum öfluga heimavelli þar sem áhorfendur eru jafnan nálægt 20 þúsund.

Portland mætir Western New York Flash í einum undanúrslitaleik í Portland og sigurliðið í þeirri viðureign leikur til úrslita við Washington eða Chicago.

Dagný  getur þar unnið meistaratitil í þriðja landinu. Hún varð Íslandsmeistari með Val 2009 og 2010 og þýskur meistari með Bayern München 2015, auk þess sem Dagný varð bandarískur háskólameistari með Florida State árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert