„Ég passa vel inn í liðið“

Elías Már fagnar marki með Gautaborg.
Elías Már fagnar marki með Gautaborg. Ljósmynd/ifkgoteborg.se

„Ég er að spila fótbolta sem mér líkar og það gefur mér mikið sjálfstraust,“ sagði Elías Már Ómarsson leikmaður Gautaborgar við fréttamenn eftir sigur sinna manna gegn Östersunds, 2:0, í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Elías Már skoraði annað mark Gautaborgarliðsins og skoraði þar með í þriðja leiknum í röð og hann hefur skorað fjögur mörk í átta leikjum með liðinu frá því hann kom til liðsins að láni frá norska liðinu Vålerenga.

Gautaborg hefur forkaupsrétt á Keflvíkingnum eftir tímabilið og sjálfur hefur Elías Már mikinn áhuga á að halda kyrru fyrir hjá Gautaborg.

„Ég passa vel inn í liðið og ég hef mikinn áhuga á að vera áfram hjá liðinu,“ sagði Elías Már. Spurður hvort hann sakni Noregs sagði Elías; „Nei alls ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert