FIFA lagði af starfshóp gegn kynþáttaníði

FIFA mótaði starfshópinn árið 2013 en hann hefur nú lokið …
FIFA mótaði starfshópinn árið 2013 en hann hefur nú lokið verki sínu. AFP

FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið, hefur ákveðið að leggja niður starfshóp sem skipaður var til þess að vinna gegn kynþáttaníði í knattspyrnuheiminum. Ekki var talin lengur þörf á starfsemi slíks hóps.

FIFA sendi bréf til meðlima starfshópsins þar sem sagði að hópurinn hefði „uppfyllt allt það sem til var ætlast í þessu tímabundna verkefni“.

Ýmsir hafa lýst yfir áhyggjum af þessari ákvörðun FIFA og Osasu Obayiuwana, sem var einn meðlima starfshópsins, óttast að kynþáttaníð verði meðal annars vandamál á næsta heimsmeistaramóti, í Rússlandi 2018:

„Ég vildi að ég gæti sagt að þessi ákvörðun kæmi mér verulega á óvart en því miður er það ekki svo. Kynþáttaníðsvandinn í fótbolta er ennþá grafalvarlegur og þarfnast stöðugrar athygli. Ég tel sjálfur að það hafi enn verið í nógu að snúast fyrir starfshópinn, meðal annars vegna HM 2018 í Rússlandi. En það er ljóst að stjórn FIFA er ekki á sama máli,“ sagði Obayiuwana.

Í bréfi FIFA til Obayiuwana og annarra meðlima starfshópsins segir að hópurinn hafi verið settur saman til að gera tillögur að því hvernig FIFA gæti barist gegn kynþáttaníði. Nú hafi þær tillögur verið nýttar til að koma af stað ýmsum verkefnum og hópurinn hafi því gert það sem til var ætlast af honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert