Fyrrum landsliðsþjálfari Íslands látinn

Henning Enoksen var mikill markaskorari á sínum tíma.
Henning Enoksen var mikill markaskorari á sínum tíma.

Henning Enoksen, fyrrverandi landsliðsmaður Dana og siðar þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, er látinn, 81 árs að aldri.

Enoksen var meðal bestu knattspyrnumanna Dana og mikill markaskorari á sínum tíma. Hann skoraði 194 mörk í 247 deildaleikjum með AGF og Vejle á árunum 1957 til 1967 og fyrir danska landsliðið skoraði hann 29 mörk í 54 landsleikjum. Þrívegis varð Enoksen markakóngur efstu deildarinnar í Danmörku, 1958, 1962 og 1966.

Hann lék með danska landsliðinu þegar það fékk silfurverðlaunin á Ólympíuleikunum í Róm árið 1960, eftir að hafa naumlega slegið Ísland út í undankeppninni, og skoraði þá í sigri á Ungverjum, 2:0, í undanúrslitum.

Enoksen lék allan sinn feril sem áhugamaður heima í Danmörku og hafnaði m.a. stóru tilboði frá ítalska félaginu Torino um að fara í atvinnumennsku. Hann endaði ferilinn sem spilandi þjálfari í neðri deildum í Danmörku og gerðist síðan kennari og tók þátt í þjálfarauppbyggingu danska knattspyrnusambandsins.

Í ársleyfi frá störfum, árið 1973, gerðist hann landsliðsþjálfari Íslands og stýrði liðinu í sex leikjum sem allir fóru fram í júlí og ágúst þá um sumarið. Ísland tapaði þar 1:0 fyrir Svíum á útivelli og 1:2 og 0:2 gegn Austur-Þjóðverjum á heimavelli en þetta voru vináttulandsleikir. Íslenska liðið lék síðan þrjá síðustu leiki sína í undankeppninni fyrir HM 1974 undir hans stjórn en tapaði þar 0:4 fyrir Noregi á heimavelli og svo tvívegis fyrir Hollandi á útivelli, 0:5 og 1:8.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert