Leikmaður PSG dæmdur fyrir líkamsárás

Serge Aurier mætir í réttarsal í París í dag.
Serge Aurier mætir í réttarsal í París í dag. AFP

Serge Aurier, varnarmaður PSG, hefur verið dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir líkamsárás hans á lögreglumann. Líkamsárásin átti sér stað í París að næturlagi í maí á þessu ári. Aurier var auk þess dæmdur til þess að greiða lögreglumanninum 600 evrur í skaðabætur og þá þarf  hann að borga 1500 evrur í málskostnað.

Aurier mun að öllum líkindum áfrýja þessum dómi, en talið er líklegt að Aurier muni ekki sitja dóminn af sér bakvið lás og slá heldur annað hvort greiða sekt eða vinna í samfélagsþjónustu. Aurier getur leikið með PSG þrátt fyrir dóminn, en næsti leikur liðsins er gegn Ludagorets í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn kemur. 

Aurier hefur áður komið sér í vandræði með slæmri hegðun sinni, en í febrúar á þessu ári setti PSG leikmanninn sem kemur frá Fílabeinströndinni í tímabundið bann fyrir að úthúða Laurent Blanc, þáverandi þjálfara liðsins, og samherjum sínum hjá liðinu í myndbandi sem birtist á samfélagsmiðlum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert