Þriðji sigur Harðar og félaga í röð - slæm töp hjá liðum Arons og Jóns Daða

Það gengur vel hjá Herði hjá sínu nýja félagi.
Það gengur vel hjá Herði hjá sínu nýja félagi. Heimasíða Bristol City

Landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon og félagar í Bristol City unnu sinn þriðja sigur í röð þegar liðið vann Leeds, 1:0, í kvöld í ensku B-deildinni. Hörður Björgvin var að vanda í hjarta varnar Bristol og lék allan leikinn en liðið hefur 17 stig í 5. sæti deildarinnar en aðeins þrjú stig eru í Norwich í 2. sætinu.

Ragnar Sigurðsson og félagar í Fulham gerðu 1:1 jafntefli við Nottingham Forest. Ragnar lék allan leikinn í miðverði hjá Fulham en liðið hefur ekki unnið núna í sex leikjum í röð. Fulham er í 12. sæti með 14 stig.

Aron Einar Gunnarsson var fjarri góðu gamni vegna meiðsla þegar Cardiff tapaði gegn Derby County heima, 2:0. Úrslitin smá skellur fyrir Cardiff þar sem Derby hafði aðeins skorað þrjú mörk á leiktíðinni til þessa en Nigel Pearson stjóri Derby var ekki á hliðarlínunni í kvöld og segja fréttir frá Englandi að hann sé væntanlega að hætta með liðið. Virðist fjarvera hans hafa svínvirkað í kvöld. Cardiff er í næstneðsta sæti deildarinnar, því 23. með 8 stig.

Landsliðsframherjinn Jón Daði Böðvarsson lék ekki í kvöld með Wolves vegna meiðsla eins og við sögðum frá í kvöld hér á mbl.is. Wolves tapaði gegn Wigan, 2:1, í Wigan sem skaust upp úr fallsæti en liðið var á botninum fyrir umferðina.  Wolves hefur 15 stig í 11. sæti.

Þá lék Eggert Jónsson fyrstu 83. mínúturnar fyrir Fleetwood Town í  2:1 tapi gegn Bradford í ensku C-deildinni en liðið hefur 12 stig í 13. sæti. Bradford er í 3. sæti með 18 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert