Hjálmar hættir eftir 15 ár í Gautaborg

Hjálmar Jónsson er vinsæll hjá IFK Gautaborg eftir að hafa …
Hjálmar Jónsson er vinsæll hjá IFK Gautaborg eftir að hafa spilað á fimmta hundrað leiki fyrir liðið. Ljósmynd/ifkgoteborg.se

Hinn 36 ára gamli knattspyrnumaður Hjálmar Jónsson, sem leikið hefur 15 tímabil og 427 leiki með IFK Gautaborg í Svíþjóð, ætlar að láta gott heita hjá félaginu eftir að tímabilinu lýkur nú í haust.

„Ég vildi bara láta liðsfélaga mína vita að þetta væru síðustu leikir mínir í bláu og hvítu treyjunni,“ sagði Hjálmar við heimasíðu IFK Gautaborgar, eftir að greint félögum sínum frá ákvörðuninni. Hann getur enn bætt við leikjum fyrir liðið áður en tímabilinu lýkur.

Hjálmar kom til Gautaborgar frá Keflavík árið 2002 og hefur síðan alltaf haldið tryggð við sænska félagið, sem þykir frekar óvenjulegt í knattspyrnuheiminum í dag.

„Það er ákveðin fótboltarómantík í því að vera svona lengi hjá sama félagi,“ sagði Hjálmar.

Mun sakna þess mest að spjalla í klefanum

Á heimasíðu Gautaborgar er sérstaklega tekið fram hve reiðubúinn hann sé að hugsa alltaf um hag liðsins. Vilji þjálfarinn að hann spili sem vinstri bakvörður geri hann það, og vilji þjálfarinn að hann spili sem miðvörður geri hann það.

Hjálmar, sem á að baki 21 A-landsleik fyrir Ísland, var spurður hvers hann ætti eftir að sakna mest:

„Það er eitthvað við spjallið í búningsklefanum. Ég veit að þetta hljómar eins og klisja en það er eitthvað alveg einstakt við það.“

Hjálmar varð sænskur meistari með Gautaborg árið 2007 og bikarmeistari árið 2008, en á þessum árum lék hann við hlið Ragnars Sigurðssonar í vörn liðsins. Hjálmar varð einnig bikarmeistari árin 2014 og 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert