Gjörbreytt lið Skota sem mætir Íslendingum

Byrjunarlið Ísland sem tapaði fyrir Frökkum í síðasta mánuði.
Byrjunarlið Ísland sem tapaði fyrir Frökkum í síðasta mánuði. Ljósmynd/KSÍ

Skoska U21 árs liðið sem etur kappi við Íslendinga í undankeppni Evrópumótsins á Víkingsvellinum á morgun er gjörbreytt frá því liðin gerðu markalaust jafntefli í fyrri leiknum í Skotlandi fyrir tæpu ári.

Scot Gemmill, sem í síðasta mánuði var ráðinn nýr þjálfari liðsins eftir að Ricky Sbragia var sagt upp störfum, er með 12 nýliða í landsliðshópi sínum en hann ákvað að yngja upp þar sem það á ekki lengur möguleika á að komast áfram.

„Við erum með spennandi unga leikmenn sem eru að koma upp og þetta er tækifæri fyrir þá að reyna sig á háu stigi,“ segir Gemmill sem áður þjálfaði U17 og U19 ára lið Skota.

Með sigri gegn Skotum komast Íslendingar í efsta sæti riðilsins og takist liðinu að leggja Úkraínumenn á Laugardalsvellinum í lokaleik sínum í riðlinum í næstu viku tryggir það sér sæti í úrslitakeppninni sem fram fer í Póllandi næsta sumar.

Leikur Íslands og Skotlands fer fram á Víkingsvelli á morgun og hefst leikurinn klukkan 15.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert