„Sé eftir að hafa ekki farið til United“

Pavel Nedved.
Pavel Nedved. AFP

Pavel Nedved, fyrrum leikmaður Juventus á Ítalíu, segist sjá eftir því að hafa ekki fengið tækifæri til þess að spila með Manchester United á Englandi. Þá er Zlatan Ibrahimovic besti leikmaður sem hann hefur leikið með.

Nedved, sem er líklega besti leikmaður Tékklands frá upphafi, lagði skóna á hilluna árið 2009, en ferill hans var glæstur. Hann var einn af þeim leikmönnum sem ákvað að vera áfram hjá Juventus þó svo félagið hafi verið dæmt niður um deild árið 2006.

Það er ekki margt sem hann sér eftir á ferli sínum en hann hefði þó viljað leika fyrir enska félagið Manchester United.

„Sé ég eftir einhverju? Já, ég hefði viljað spila fyrir Manchester United. Það var þó aldrei í boði en ég hefði getað spilað fyrir Chelsea,“ sagði Nedved.

„Ég var virkilega hrifinn af Ryan Giggs og Paul Scholes, ég dýrkaði þá. Ég var svolítið öfundssjúkur út í Karel Poborsky sem lék í Manchester og fékk að upplifa frábæra leiki fyrir félagið,“ sagði hann ennfremur.

Hann segir þá að Zlatan Ibrahimovic sé besti liðsfélagi hans en þeir léku einmitt saman hjá Juventus.

„Ég hef átt marga frábæra liðsfélaga og ég vil helst ekki móðga neinn en ef ég ætti að nefna einn þá væri það Zlatan Ibrahimovic. Hann er framherji sem getur keyrt í gegnum varnir, með skuggalegan kraft og hefur hæðina. Auk þess er hann með magnaða tækni,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert