Landsliðshetja með heilaæxli

Lauren Holiday og Carli Lloyd fagna einu markanna í úrslitaleik …
Lauren Holiday og Carli Lloyd fagna einu markanna í úrslitaleik HM í fyrra. Lloyd skoraði þrjú og Holiday eitt. AFP

Lauren Holiday hefur gengist undir aðgerð þar sem heilaæxli var fjarlægt, en aðeins er mánuður síðan hún eignaðist sitt fyrsta barn. Holiday lagði knattspyrnuskó sína á hilluna í fyrra eftir að hafa gert garðinn frægan með landsliði Bandaríkjanna.

Hin 28 ára gamla Holiday var greind með heilaæxli í september þegar hún var gengin átta mánuði á leið, en hún ákvað að eiga barnið fyrst áður en hún tæklaði æxlið. Aðeins er rúmt ár síðan Holiday var í eldlínunni með Bandaríkjunum þegar liðið hampaði heimsmeistaratitlinum.

Holiday skoraði meðal annars í 5:2-sigri Bandaríkjanna gegn Japan í úrslitaleik HM í fyrra, en hún lagði skóna á hilluna í kjölfarið. Hún skoraði 24 mörk í 133 landsleikjum og vann meðal annars tvö gullverðlaun á Ólympíuleikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert