Kári sænskur meistari

Kári Árnason varð í kvöld sænskur meistari.
Kári Árnason varð í kvöld sænskur meistari. AFP

Kári Árnason og félagar hans í Malmö urðu í kvöld sænskir meistarar í knattspyrnu. Malmö hafði betur gegn Falkenberg á útivelli í kvöld á meðan aðalkeppinautarnir í Norrköping töpuðu sínum leik.

Kári lék allan tímann í vörn Malmö, sem lagði Falkenberg á útvelli, 3:0. Með sigrinum náði Malmö sjö stiga forskoti á toppi deildarinnar þegar tveimur umferðum er ólokið. Viðar Örn Kjartansson á einnig hlut í meistaratitlinum, en hann lék 20 leiki með liðinu áður en hann samdi við ísraelska liðið Maccabi Tel-Aviv og skoraði í þeim 14 mörk. Hann er sem stendur markahæstur í deildinni.

Norrköping, sem átti titil að verja, var eina liðið sem átti möguleika á að skáka Malmö en liðið tapaði fyrir Elfsborg, 2:1. Jón Guðni Fjóluson var í byrjunarliði Norrköping en fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiksins.

Íslendingaliðið Hammarby tapaði fyrir Östersunds, 2:0. Markvörðurinn Ögmundur Kristinsson og Arnór Smárason léku allan tímann fyrir Hammarby en Birkir Már Sævarsson fór meiddur af velli á 15. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert