„Færi honum medalíuna á Ítalíu“

Kári ásamt Norðmanninum Magnusi Eikrem í búningsklefa Malmö í gærkvöld.
Kári ásamt Norðmanninum Magnusi Eikrem í búningsklefa Malmö í gærkvöld. Ljósmynd/twitter

„Það var eðlilega fagnað vel og innilega langt fram á nótt og það var mikið stuð á heimleiðinni,“ sagði landsliðsmaðurinn Kári Árnason við mbl.is en Kári og samherjar hans í Malmö tryggðu sér sænska meistaratitilinn með 3:0 sigri á móti Falkenberg í gærkvöld.

„Ferðin til Malmö eftir leikinn var ansi löng. Við vorum komnir til Malmö klukkan 1 um nóttina og þá var haldið í partí sem stóð yfir langt fram á nótt. Menn voru í góðum gír,“ sagði Kári.

Kári gekk í raðir Malmö í júní á síðasta ári og hefur miðvörðurinn sterki leikið stórt hlutverk með liðinu frá því hann kom til þess.

„Það stefndi allt í að við yrðum meistarar og fyrir tímabilið voru flestir þeirrar skoðunar að við myndum landa titlinum. Við hefðum kannski átt að vera búnir að gera út um þetta fyrr en nú er þetta í höfn og það er óskaplega ánægjulegt.

Á eitt ár eftir af samningi sínum

Við fengum smá uppvakningu þegar við steinlágum á móti Östersunds, 3:0, á heimavelli um daginn. Í þeim leik vorum við allir úti á þekju og það var hreinlega eins og við værum að spila við Barcelona. Yfirburðir þeirra voru svo miklir. Heilt yfir hefur tímabilið verið gott hjá okkur. Nú undir lokin höfum við misst marga lykilleikmenn í meiðsli og því hafa ungu strákarnir þurft að taka við keflinu og til að mynda gerði 17 ára strákur útslagið í sigrinum á móti Falkenberg,“ sagði Kári, en þegar tvær umferðir eru eftir af sænsku deildinni er Malmö með sjö stiga forskot á Norrköping, sem varð meistari á síðasta ári.

Kári Árnason í baráttu við Cristiano Ronaldo á dögunum.
Kári Árnason í baráttu við Cristiano Ronaldo á dögunum. AFP


Þetta er í annað sinn sem Kári verður sænskur meistari, en hann hann varð Svíþjóðarmeistari og bikarmeistari með Djurgården árið 2005.

„Það er gaman að ná þessum titli með öðru liðinu í Svíþjóð,“ sagði Kári, sem er samningsbundinn Malmö út næstu leiktíð. „Framhaldið er óráðið. Ég á eitt ár eftir af samningi mínum og er því ekkert að stressa mig á hlutunum. Það verður bara að koma í ljós hvað Malmö vill gera. Ég held að Malmö sé sterkasta liðið sem ég hef spilað með á ferlinum og ég tala nú ekki um þegar við getum stillt upp sterkasta liði okkar,“ sagði Kári, sem er 34 ára gamall og er einn af lykilmönnum íslenska landsliðsins.

Viðar Örn Kjartansson lagði svo sannarlega sitt af mörkum í meistaratitli Malmö, en hann skoraði 14 mörk í þeim 20 leikjum sem hann spilaði með liðinu áður en hann var seldur til Maccabi Tel-Aviv í ágúst.

„Ég mun færa honum medalíuna þegar við hittumst á Ítalíu fyrir landsleikinn á móti Króatíu. Hann á stóran þátt í þessum titli og vonandi endar hann sem markakóngur deildarinnar,“ sagði Kári, en þegar tvær umferðir eru eftir er Viðar Örn markahæstur, hefur skorað einu marki meira en næsti maður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert