Kári vill ljúka ferlinum hjá Malmö

Kári Árnason.
Kári Árnason. Ljósmynd/malmöff

Landsliðsmaðurinn Kári Árnason varð í gær sænskur meistari í knattspyrnu með liði Malmö. Hann biðlar nú til forráðamanna félagsins um að bjóða sér nýjan samning en núgildandi samningur hans rennur út á næsta ári.

„Ég vona að ég fái nýjan samning hjá Malmö. Ég kann mjög vel við mig hér,“ sagði Kári við fotbollskanalen og játti því þegar hann var spurður í kjölfarið hvort hann vilji enda ferilinn hjá Malmö. En það er ekki bara fótboltinn sem Kári er ánægður með.

„Við erum allir miklir félagar, erum í sama golfklúbbnum og spilum saman tvisvar í viku. Ég vann titilinn með Djurgården árið 2005 en það er ekki hægt að bera þá saman. Hér er samheldnin mun meiri og fyrirliðinn Mark [Rosenberg] er besti fyrirliði sem ég hef spilað með. Það er ekki hægt að segja neitt neikvætt um liðsfélaga mína,“ sagði Kári.

Kári var spurður í kjölfarið hvort þetta sé besta lið sem hann hefur spilað með. „Já, það má segja það,“ sagði Kári sem hefur átt virkilega gott ár bæði með Malmö og að sjálfsögðu íslenska landsliðinu.

„Þetta hefur verið virkilega góður tími í Malmö. Með Íslandi var auðvitað mjög einstakt að spila á EM í fyrsta sinn, en mér hefur einnig gengið vel hjá mínu félagsliði,“ sagði Kári, sem áður var hjá Rotherham í neðri deildum Englands. Hjá Malmö spilaði hann hins vegar í Meistaradeildinni.

„Við náðum góðum árangri þar, en ekkert á við þetta. Að spila í Meistaradeildinni er á meðal minna bestu minninga sem knattspyrnumaður,“ sagði Kári Árnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert