Arnar mun aðstoða Rúnar

Rúnar Kristinsson ræddi við fréttamenn í dag eftir ráðninguna.
Rúnar Kristinsson ræddi við fréttamenn í dag eftir ráðninguna. Ljósmynd/Kristján Bernburg.

Arnar Þór Viðarsson verður aðstoðarþjálfari Rúnars Kristinssonar hjá Lokeren en Rúnar var í dag kynntur til leiks sem nýr aðalþjálfari belgíska knattspyrnuliðsins.

Eftir að Geor­ges Leekens var rekinn frá Lokeren í byrjun vikunnar tók Arnar tímabundið við sem aðalþjálfari liðsins, en hann hafði verið aðstoðarþjálfari þess og auk þess þjálfari varaliðs félagsins. Í samtali við Fótbolta.net í dag segir Rúnar að Arnar verði aðstoðarþjálfari í sinni stjórnartíð, og komi til með að stýra æfingum liðsins.

Rúnar segir jafnframt að svo geti farið að Arnar stýri Lokeren í næsta leik liðsins, sem verður gegn AS Eupen annað kvöld, og að Rúnar fylgist með úr stúkunni. Fyrsti leikur liðsins með Rúnar á hliðarlínunni yrði þá heimaleikur gegn Mechelen eftir rúma viku.

Með Lokeren leika tveir íslenskir landsliðsmenn, þeir Sverrir Ingi Ingason og Ari Freyr Skúlason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert