Ronaldo segist áhyggjulaus

Cristiano Ronaldo virðist hafa litlar áhyggjur af upplýsingunum frá Football-Leaks.
Cristiano Ronaldo virðist hafa litlar áhyggjur af upplýsingunum frá Football-Leaks. AFP

Portúgalska knattspyrnustjarnan Cristiano Ronaldo segist ekki hafa áhyggjur af nýjum upplýsingum frá Football-Leaks, sem sýna fram á það að auglýsingatekjur hans hafa farið í gegnum aflandsfélög á Panama. Hann segist saklaus.

Fjölmargir fjölmiðlar á borð við Der Spiegel, El Mundo og Express hafa undanfarna mánuði birt viðkvæmar upplýsingar sem tengjast knattspyrnumönnum. Þessir tilteknu fjölmiðlar komust yfir upplýsingar sem varða auglýsingatekjur knattspyrnumanna en nokkrir þeirra virðast hafa falið peninga í aflandsfélögum.

Leikmennirnir sem um ræðir eru flestir með sama umboðsmanninn, Jorge Mendes, en það hefur komið upp á yfirborðið að Pepe, Fabio Coentrao, Ricardo Carvalho, Radamel Falcao, Angel Di Maria, Javier Pastore og Cristiano Ronaldo hafi allir farið með auglýsingatekjur sínar í gegnum aflandsfélög á Panama.

Skattyfirvöld á Spáni segjast hafa verið að fylgjast með Carvalho, Coentrao, Falcao og Ronaldo síðasta árið en nú hafa ný gögn komið upp á yfirborðið og er rannsókn því í fullum gangi.

Talið er að Ronaldo hafi farið með yfir 150 milljónir evra í gegnum aflandsfélögin en allt tengist það auglýsingatekjum. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi fyrir skattsvik.

Blaðamaður RTP náði tali af Ronaldo eftir 2:2 jafntefli Real Madrid gegn Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu í vikunni en portúgalski landsliðsmaðurinn hefur litlar áhyggjur af þessu.

„Heldur þú að ég hafi áhyggjur af þessu? Þeir sem hafa ekki gert neitt rangt, þurfa ekki að óttast neitt,“ sagði Ronaldo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert