Ramos hetja Real í uppbótartíma

Sergio Ramos fagnar sigurmarki sínu í uppbótartíma.
Sergio Ramos fagnar sigurmarki sínu í uppbótartíma. AFP

Real Madrid vann heldur betur eljusigur þegar liðið fékk Deportivo La Coruna í heimsókn í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld. Sigurmark þeirra, 3:2, kom í uppbótartíma.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Alvaro Morata Madrídingum yfir. Deportivo svaraði hins vegar þegar Joselu skoraði tvívegis á þriggja mínútna kafla. Real virtist í alls kyns vandræðum, en endurkoma þeirra var hins vegar fullkomin.

Varamaðurinn Mariano Díaz jafnaði fyrir Real á 84. mínútu, en á annarri mínútu uppbótartímans tryggði varnarjaxlinn Sergio Ramos öll stigin með skalla eftir hornspyrnu. Lokatölur 3:2 fyrir Real.

Madrídingar eru því enn með sex stiga forskot á toppnum, eru með 37 stig eftir 15 umferðir en Barcelona hefur 31 stig í öðru sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert