Ánægður að Aron fari til Kína

Aron Sigurðarson í búningi Tromsø.
Aron Sigurðarson í búningi Tromsø.

Bård Flovik, þjálfari norska knattspyrnuliðsins Tromsø, er afar ánægður með að Aron Sigurðarson, leikmaður liðsins, skuli hafa verið valinn í íslenska landsliðið sem er á leið til Kína á alþjóðlegt mót sem hefst á þriðjudaginn.

„Það er einstaklega ánægjulegt að íslenska landsliðsþjálfaranum skuli finnast Aron það spennandi leikmaður að hann skuli hafa hann með í hópnum. Aron fær geysilega dýrmæta reynslu á sama tíma og við erum að fara af stað á okkar undirbúningstímabili," segir Flovik á vef Tromsø.

Ísland mætir Kína í fyrri leik sínum á mótinu á þriðjudaginn kemur, 10. janúar, og mætir síðan annaðhvort Króatíu eða Síle 14. eða 15. janúar.

Aron hefur áður leikið einn A-landsleik en hann nýtti tækifærið vel og skoraði glæsilegt mark þegar Bandaríkin unnu Ísland 3:2 í vináttulandsleik í Kaliforníu í lok janúar á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert