Þarna hrundi nánast allt á einni nóttu

Elísabet Gunnarsdóttir á æfingasvæðinu.
Elísabet Gunnarsdóttir á æfingasvæðinu. Ljósmynd/Joel Andersson

„Árið 2016 er það erfiðasta sem ég hef upplifað á mínum þjálfaraferli. Þann 11. maí tilkynnti ég leikmönnum liðsins að félagið væri 99 prósent gjaldþrota, við myndum ekki spila fleiri leiki og þeim væri frjálst að fara,“ segir Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari sænska knattspyrnuliðsins Kristianstad sem hún hefur þjálfað sleitulaust frá árslokum 2008 en hún er nú að hefja sitt níunda tímabil með liðið.

Elísabet hefur siglt með liðið í gegnum mikla brotsjói, sérstaklega undanfarin tvö ár, en í haust hélt liðið naumlega velli í sænsku úrvalsdeildinni eftir hreinan úrslitaleik við Umeå í lokaumferðinni. Útlitið er hinsvegar allt annað í dag og Elísabet bíður spennt eftir nýju tímabili, enda hefur margt breyst hjá Kristianstad undanfarna mánuði.

Vinurinn fékk krabbamein

„Þetta er löng saga sem spannar undanfarin tvö ár en þá fengum við nýjan fjárfesti sem ætlaði að koma af krafti í þetta með okkur. Ég var búin að leggja sjálf gífurlega vinnu í að fá hann til félagsins. Hann var nýbyrjaður þegar hans besti vinur veiktist af krabbameini og fjárfestirinn fór í það að flakka með hann um allan heim til að reyna að bjarga honum, og setti sinn kraft og peninga í það en dró sig út hjá okkur. Fyrir mig persónulega var þetta gríðarlegt sjokk því á einni viku varð þarna að engu það sem búið var að byggja upp á löngum tíma. Ég var búin að leggja mikla vinnu í að fá aðila á borð við þennan að félaginu. Þarna hrundi nánast allt á einni nóttu og félagið var komið í enn verri stöðu en það var í áður. Á þeim tíma var mér og öðrum í kringum félagið ljóst að ef við gæfumst upp myndi félagið hreinlega hverfa og fara niður um deildir.“

Held stundum að ég sé vitlaus

Hún segir að það hafi aldrei komið til greina að yfirgefa félagið í þessum mótbyr. „Ég er ótrúlega þrjósk, held stundum að ég sé jafnvel vitlaus, en ég er bara ekki þjálfari sem flakkar á milli félaga og vil bara taka það besta sem býðst, enda hef ég nánast bara þjálfað tvö félög á öllum mínum ferli. En þegar ég tilkynnti leikmönnunum um stöðuna 11. maí, einmitt á afmælisdegi Vals, sá ég ekki annað en þetta væri búið. Þá tóku þrír leikmannanna sig til og báðu um leyfi til að fara í fjölmiðlana í bænum og óska eftir stuðningi. Stjórnin féllst á það og þetta gekk heldur betur upp. Staðan gjörbreyttist, fullt af fólki í Kristianstad var tilbúið til að koma okkur til aðstoðar, meðal annars stórir aðilar sem lýstu sig reiðubúna til að styrkja okkur. Ég eyddi mestöllu sumrinu í peningahark fyrir félagið og einhvern veginn gekk þetta allt upp.“

Ítarlegt viðtal við Elísabetu er að finna í heild sinni í iþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert