Kolbeinn í aðra aðgerð?

Kolbeinn hefur ekki spilað síðan í ágúst.
Kolbeinn hefur ekki spilað síðan í ágúst. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fjallað var um landsliðsframherjann Kolbein Sigþórsson í frönskum fjölmiðlum í dag. 

Umfjöllunin var heldur á neikvæðu nótunum þar sem franska blaðið L'Equipe vildi meina að Kolbeinn, sem leikur með Nantes í Frakklandi, væri týndur á Íslandi og að samband hans við félagið væri mjög slæmt. Hann hafi m.a ekki komið í umbeðna læknisskoðun hjá Nantes, þar sem hann fannst ekki einfaldlega ekki. 

Finna ekki Kolbein

Andri Sigþórsson bróðir og umboðsmaður Kolbeins, vísaði þessum fréttum alfarið á bug, er mbl.is heyrði í honum í dag.  

„Þetta er ekki rétt. Ég er í daglegum samskiptum við félagið, hvað franskir fjölmiðlar eru að skrifa get ég ekki tjáð mig um en þetta er ekki rétt. Ég er með hann við hliðina á mér, hann er ekki týndari en það," sagði Andri og hló við. 

„Hann er samningbundinn Nantes, það er félagið hans. Þegar hann er orðinn heill fer hann aftur til síns félags."

Kolbeinn hefur verið að glíma við meiðsli og hefur hann ekki spilað keppnisleik síðan í lok ágúst. Hann var lánaður til Galatasary í Tyrklandi eftir mótið en félagið rifti að lokum samningi hans vegna meiðslanna. 

Andri segir stöðuna á meiðslum Kolbeins ekki góða og segir að framherjinn gæti þurft að gangast undir aðgerð til að ná sér góðum af hnémeiðslum. Það yrði önnur aðgerð Kolbeins á skömmum tíma en hann fór í aðgerð stuttu eftir Evrópumótið. Andri bætti við að Kolbeinn sé að leggja mikið á sig til að koma sér í rétt far. 

„Heilsan er ekki nógu góð, hann er núna að vinna í það byggja sig upp aftur til að koma sér í stand eins fljótt og hægt er. Það gæti þurft aðgerð til að koma hnénu í gang aftur en við vitum það ekki fyrr en í næstu viku, hvort það þurfi aðgerð eða ekki."

„Það er ekki hægt að setja tímasetningu á hvenær hann kemur til baka. Hann er að vinna í sjálfum sér alla daga. Hann er í endurhæfingu og hann er að gera allt sem hann getur til að koma sér í stand. Við þurfum að fá hann út á völl aftur. Við söknum hans," sagði Andri Sigþórsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert