Mögnuð markaveisla

Radamel Falcao fagnar marki sínu gegn Manchester City.
Radamel Falcao fagnar marki sínu gegn Manchester City. AFP

Það var sannkallað markaregn í leikjunum tveimur í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. 14 mörk voru skoruð í tveimur frábærum fótboltaleikjum.

Á Ethiad-vellinum í Manchester höfðu heimamenn í Manchester City betur gegn Mónakó, toppliðinu í frönsku 1. deildinni, í hreint út sagt mögnuðum knattspyrnuleik en eftir að hafa lent 3:2 undir fagnaði City, 5:3 sigri. Sergio Agüero skoraði tvö marka Manchester City og þeir Raheem Sterling. John Stones og Leroy Sané skoruðu sitt markið hver.

Radamel Falcao skoraði tvö af mörkum Mónakó, sem lék stórkostlega í klukkutíma, og ungstirnið Kylian Mbappe skoraði eitt. Falcao fór illa að ráði sínu en Willy Caballero varði frá honum vítaspyrnu en þessi leikur er án efa skemmtilegasti leikur tímabilsins og líklega þar að fara mörg ár aftur í tímann til að verða vitni af annarri eins skemmtun.

Atlético Madrid stendur vel að vígi eftir 4:2 sigur á útivelli gegn Bayer Leverkusen. Saúl Niguez, Antoine Griezmann, Kevin Gameiro og Fernando Torres skoruðu mörk Madridarliðsins. Karim Bellarabi skoraði fyrra mark Leverkusen og það síðara var sjálfsmark.

Bein lýsing frá leikjunum:

Úrslitin í leikjunum:
Manchester City - Mónakó 5:3 (leik lokið)
Bayer Leverkusen - Atlético Madrid 2:4 (leik lokið)

90+4 Veislunni er lokið. Manchester City og Atlético Madrid fagna bæði tveggja marka sigri gegn andstæðingum sínum.

86. MARK! Það er líka rosalegt stuð í Leverkusen en sjötta markið var að líta dagsins ljós. Það skoraði Fernando Torres og Atletíco Madrid er komið í 4:2.

84. Falcao í dauðafæri en Caballero sá við honum og varði gríðarlega vel. Þetta er hreint út sagt meiriháttar leikur.

82. MARK! Já var það ekki. City er komið í 5:3. Leroy Sané skorar af stuttu færi eftir sendingu frá Agüero.

80. Agüero nálægt því að fullkomna þrennuna en markvörður gestanna varði fast skot Argentínumannsins. City er nær því að bæta fimmta markinu við heldur Mónakó að jafna.

77. MARK! Þetta ætlar engan endi að taka. Manchester City er komið í 4:3. John Stones skorar af stuttu færi eftir hornspyrnu og kollspyrnusendingu frá Yaya Touré.

70. MARK! Þetta er magnað. Sergio Agüero var að jafna metin í 3:3 með viðstöðulausu skoti eftir hornspyrnu frá David Silva.

68. MARK! Fjörið heldur áfram. Leverkusen var að minnka muninn í 3:2 með sjálfsmarki frá Stefan Savic.

63. Atli Viðar Björnsson, markavélin úr FH, var sáttur með afgreiðsluna hjá Falcao.

61. MARK! Gargandi snilld. Falcao hafði betur í baráttunni við John Stones og skoraði með því að vippa boltanum snyrtilega yfir Caballero. Meiri háttar mark og hann er búinn að bæta fyrir vítaspyrnuklúðrið. Þessi leikur er frábær skemmtun!

59. MARK! City er búið að jafna metin. Sergio Agüero skoraði markið en markvörður Mónakó var alveg úti á þekju. Hann átti klárlega að verja skot Argentínumannsins sem var ekkert sérlega gott.

59. MARK! Atlético Madrid er búið að ná tveggja marka forystu á nýjan leik. Kevin Gameiro skoraði úr vítaspyrnu en skömmu áður átti hann skot í þverslánna.

49. VÍTI VARIÐ! Wilfredo Caballero markvörður Manchester City ver slaka vítaspyrnu frá Falcao sem hann fékk sjálfur eftir að Otamendi braut á honum innan teigs.

49. MARK! Leverkusen er búið að minnka muninn í 2:1 með marki frá Karim Bellarabi. Þetta var lífsnauðsynlegt fyrir heimamenn.

46. Síðari hálfleikur er hafinn í leikjunum tveimur.

45. Það er búið að flauta til hálfleiks í leikjunum tveimur þar sem útiliðin eru í góðum málum. Leikur Manchester City og Mónakó hefur verið frábær skemmtun og franska liðið hefur á köflum sýnt snilldartilþrif. Í Leverkusen þurfa heimamenn að koma sér inn í leikinn allra fyrst ætli þeir sér að eiga einhverja möguleika.

41. MARK! Ég skal segja ykkur það. Hinn 18 ára gamali Kylian Mbappe skorar með góðu skoti upp í markhornið eftir slakan varnarleik City-manna.

40. Eiður Smári er ánægður með Falcao.

35. VÍTI? Sergio Agüero komst einn í gegn, lék á markvörðinn sem felldi Argentínumanninn en í stað þess að dæma vítaspyrnu fékk Agüero gult spjald fyrir leikaraskap. Þetta var ekki réttur dómur! Vítaspyrna og ekkert annað.

33. MARK!! Já hver annar en Radamel Falcao er búinn að jafna metin fyrir Mónakó. Kólumbíumaðurinn kastaði sér fram og skallaði boltann í netið eftir góða fyrirgjöf. 20. mark hans á leiktíðinni og það í 26. leiknum.

27. MARK! Þetta lítur vel út fyrir Atlético Madrid en liðið er komið í 2:0. Frakkinn Antoine Griezmann skoraði markið.

25. MARK! Manchester City er komið í 1:0. Raheem Sterling skoraði af stuttu færi eftir sendingu fá Leroy Sané.

23. Sergio Agüero í dauðafæri en hittir boltann illa og Mónakó náði að bægja hættunni frá á elleftu stundu.

Saul Niguez fagnar fyrsta marki Atlético Madrid.
Saul Niguez fagnar fyrsta marki Atlético Madrid. AFP

17. MARK! Atlético Madrid er komið í 1:0 á útvelli gegn Bayer Leverkusen með marki frá Saul Nihuez.

15. Leikur Manchester City og Mónakó er galopinn og ólíklegt er að ekki verði skorað mark í þessum leik.

12. Stöngin! Atlético Madrid nálægt því að komast yfir í Þýskalandi en boltinn fór í stöngina eftir skot Felipe Luiz sem hafði viðkomu í varnarmanni.

8. Það er markalaust í báðum leikjum kvöldsins. Á Ethiad-vellinum í Manchester hafa liðin skipst á að sækja og fyrsta gula spjaldið er komið á loft. Það fékk Kamil Glik sem er þar með kominn í leikbann.

1. Búið er flauta til leiks í leikjunum tveimur. Vonandi fáum við fjöruga og skemmtilega leiki í kvöld.

Byrjunarliðin í kvöld:

Manchester City: Caballero, Sagna, Stones, Otamendi, Fernandinho, Yaya Toue, Sane, Silva, De Bruyne, Sterling, Agüero.

Mónakó: Subasic, Glik, Raggi, Mendy, Sidibe, Fabinho, Bakayoko, Silva, Lemar, Mbappe, Falcao.

Leverkusen: Leno, Henrichs, Dragovic, Toprak, Wendell, Bellarabi, Araguiz, Kampl, Brandt, Hernandez, Havertz. 

Atlético Madrid: Moya, Vrsaljko, Savic, Gimenez, Filipe Luis, Gabi, Niguez, Koke, Carrasco, Griezmann, Gameiro.

0. Pep Guardiola gerir sjö breytingar á byrjunarliði Manchester City frá jafnteflisleiknum gegn Huddersfield í bikarnum um síðustu helgi. John Stones, Nicolas Otamendi, Sergio Aguero og Fernandinho halda sætum sínum.

0. Mónakó, sem hefur þriggja stiga forskot á Paris SG í toppsæti frönsku 1. deildarinnar, hefur þrívegis mætt enskum liðum í útsláttarkeppni í Meistaradeildinni og hefur haft betur í öll skiptin.

0. Mónakó er næstmarkahæsta liðið í Evrópuboltanum á eftir Barcelona á þessu tímabili en liðið hefur skorað 76 mörk í 28 leikjum. Radamel Falcao hefur skorað flest þeirra eða 19 í 25 leikjum. Hjá Manchester United skoraði hann 4 mörk í 29 leikjum.

0. Pep Guardiola hefur tvívegis fagnað sigri í Meistaradeildinni með liði Barcelona.

0. Manchester City hefur aldrei tapað leik gegn frönsku liði í Meistaradeildinni.

0. Atlético Madrid hefur tvívegis leikið til úrslita í Meistaradeildinni, 2014 og á síðustu leiktíð, og tapað í bæði skiptin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert