Hart verður fyrirliði enska liðsins

Joe Hart verður fyrirliði Englands þegar liðið mætir Litháen í …
Joe Hart verður fyrirliði Englands þegar liðið mætir Litháen í undankeppni HM 2018 á Wembley á morgun. AFP

Joe Hart, markvörður enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, mun bera fyrirliðabandið þegar England mætir Litháen í fimmtu umferð F-riðils í undankeppni HM 2018 á Wembley á morgun. 

Hart, sem hefur leikið sem lánsmaður frá Manchester City hjá ítalska liðinu Torino á yfirstandandi leiktíð, hefur leikið alla fjóra leiki Englands í undankeppninni til þessa. England trónir á toppi riðilsins með 10 stig.  

Wayne Rooney og Jordan Henderson, sem hafa hvor um sig verið fyrirliðar í tveimur leikjum í undankeppninni, verða báðir fjarri góðu gamni vegna meiðsla í leiknum gegn Litháen á morgun. 

Gary Cahill var fyrirliði enska liðsins þegar liðið laut í lægra haldi með einu marki gegn engu fyrir Þýskalandi í vináttuleik í Dortmund í vikunni.

Gareth Southgate, þjálfari Englands, hefur hins vegar ákveðið að Hart muni leiða ensku leikmennina inn á völlinn þegar liðið mætir Litháen á morgun.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert