Erfitt er að halda því fram að Holland, sem fékk brons á síðasta HM, sé enn á meðal bestu karlalandsliða heims í knattspyrnu. Holland tapaði í kvöld fyrir Búlgaríu 2:0.
Spas Delev, sem spilar fyrir Pogoń Szczecin í Póllandi, skoraði bæði mörk leiksins og komu þau á 5. og 20. mínútu.
Holland er með 50% árangur í undanriðli sínum og er í 4. sæti. Holland er með 7 stig og hefur unnið tvo leiki gegn Lúxemborg og Hvíta-Rússlandi, gert eitt jafntefli og tapað tveimur. Liðið er sex stigum á eftir Frakklandi, þremur á eftir Svíum og einu á eftir Búlgaríu.
Holland sat eftir í riðli Íslands í undankeppni EM þrátt fyrir að þrjú lið kæmust áfram og missti því af lokakeppninni. Nú stefnir í að erfitt verði fyrir Hollendinga að komast í lokakeppni HM í Rússlandi miðað við úrslitin hjá þeim í kvöld.
Hollendingar eru ekki ókunnir sveiflum sem þessum. Eftir að hafa komist í úrslitaleik HM 1974 og 1978 þá tókst Hollandi ekki að komast í lokakeppni HM 1982 og 1986 né lokakeppni EM 1984. En þegar liðinu tókst að komast í lokakeppni EM 1988 þá fór liðið alla leið og sigraði. Er það eini sigur Hollands á stórmóti.